Besti túrinn í hálfa öld

Deila:

Lúðvík Smárason rær á Kára SH á handfærum og byrjaði úthaldið í mars. Úthaldinu lauk í síðustu viku með metróðri en heildaraflinn er 87,5 tonn. „Síðasti túr er sá besti síðan við bræður byrjuðum í útgerð fyrir rúmri hálfri öld. Við vorum tveir um borð, ég og Örn bróðir  og aflinn varð 5,208 kíló, varla pláss fyrir einn fisk í viðbót. Fiskurinn fór á markað og aflaverðmætið rúmlega 2,3 milljónir króna. Það voru fín dagslaun,“ segir Lúðvík í samtali við Auðlindina.

Lúðvík hóf útgerð ásamt Erni bróður sínum 1972 á svo litlum bát, að hann var ekki einu sinni skráningarhæfur. 1976 kaupir hann svo bát, sem hann gaf nafnið Kári. Hann var 3,8 tonn. 1994 seldi hann þann bát og færði sig niður í krókakerfið. Upphaflega var kvótinn rúmlega 100 tonn en stendur nú í um 70 tonnum af slægðu.

Lúðvík er ekki bara trillukarl. Hann er hagleiksmaður og smíðaði kaffihúsið Gilbakka á lóð við verkstæði föður hans við Keflavíkurlendingu. Hann byrjaði árið 2012 að reisa húsið. Húsið var svo flutt árið 2017, þar gamla Gilbakkahúsið stóð. Þar var frágangur innan húss kláraður og rekstur kaffihúss var hafinn í því 2018. En þau hjónin voru búin að vera með rekstur kaffihúss á Rifi frá árinu 2007 í elsta húsinu á Rifi. Þetta er því 17 sumarið sem þau hjón eru búin að vera í kaffihúsarekstri.

Á myndinni er Örn og eru þeir Lúðvík að undirbúa siglingu í land,

 

Deila: