Færri skip veiða fleiri fiska

Deila:

Úthlutun aflaheimilda á nýju fiskveiðiári er aðalefni september útgáfu sjávarútvegstímaritsins Ægis. Auk þess er þar að vanda finna fjölbreytta umfjöllun um málefni sjávarútvegsins. Sagt er frá sýningunni Sjávarútvegur 2019, sem hefst um miðja næstu viku. Fjallað er um strandveiðar, sem skiluðu góðri afkomu og grásleppuvertíðina, sem gekk mjög vel. Þá er farið yfir raftengingar fiskiskipa í höfnum landsins og ný fiskiskip sem eru að bætast í flotann.

„Upplýsingar um úthlutun aflaheimilda í upphafi fiskveiði­ ársins segja mikið um þróun í greininni. Í allmörg ár hafa 50 stærstu fyrirtækin í greininni ráðið yfir hátt í 90% aflaheimildanna sem gefur til kynna hversu mikilvægt atriði stærðarhagkvæmni er. Greinin á í harðri samkeppni á afurðamörkuð­ um og þarf því alla daga að leita hagræðingarleiða til að standast hana. Í því samhengi er gjarnan minnt á að hörðustu samkeppnisþjóðir okkar á afurðamörkuðum búa ekki við gjaldtöku á borð við veiðileyfagjöld og raunar fleiri gjaldstofna líkt og íslensku fyrirtækin þurfa að gera. Að auki þarf svo íslenskur sjávarútvegur að keppa á innlendum atvinnumarkaði, líkt og aðrir.
Annað áhugavert atriði er að skoða þróun í fjölda skipa og báta sem fá úthlutun. Aðeins eru 37 skuttogarar skráðir með aflaheimild í íslenska flotanum en ef litið er aftur til úthlutunar í september 2009 þá fengu 59 skuttogarar aflaheimildir á því fiskveiðiári sem þá hófst. Og til viðbótar þarf að hafa í huga að þá var úthlutað tæplega 260 þúsund tonnum í þorskígildum en 372 þúsund þorskígildistonnum nú. Með öðrum orðum sækja færri skip og bátar talsvert meiri afla en áður. Þetta er þróun sem ekki er að sjá annað en haldi áfram að minnsta kosti um sinn,“ segir ritstjóri Ægis meðal annars í leiðara blaðsins.

Deila: