Í fremstu röð í heiminum

Deila:

Greining Sjávarklasans á stöðu tæknifyrirtækja hér á landi, sem tengjast sjávarútvegi, varpar ljósi á athyglisverða þróun sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Til að átta sig á því hvaða fyrirtæki eiga hér í hlut skulu nefnd þau tíu stærstu: Marel, Skaginn3X, Héðinn, Kælismiðjan Frost, Valka, Vaki, Curio, Naust Marine, Rafeyri og Samey. Fyrirtækin eru misvel þekkt, en þrátt fyrir það veltu þau 42 milljörðum króna í sjávarútvegstengdri starfsemi í fyrra, fiskeldi þar meðtalið. Fjölmörg önnur fyrirtæki mætti nefna og ef veltu þeirra er bætt við hækkar talan í 82 milljarða króna. Farið er yfir þessi mál á heimasíðu SFS.

Fyrirtækin fást við fjölbreytta framleiðslu og mörg þeirra byggjast á svokallaðri fjórðu iðnbyltingu. Þau eru því spennandi hátæknifyrirtæki. Það athyglisverða við þetta er, að Íslendingar eru í fremstu röð í heiminum þegar kemur að framleiðslu tækja og tóla fyrir sjávarútveg. Þar eru þeir gerendur í stað þess að leita lausna frá öðrum. Þetta skiptir máli og afrakstur þessa er sífellt að koma betur í ljós. Nefna má að Skaginn 3X á Akranesi er með um 300 starfsmenn. Þar af eru um 200 á Akranesi og um 70 á Ísafirði. Tekjur fyrirtækisins námu rúmlega 8 milljörðum króna í fyrra og jukust um 2,4 milljarða frá árinu á undan. Þetta er í raun stóriðja fyrir sveitarfélag eins og Akranes og vonandi vel þegin í atvinnulífið á Skaganum.

Spyrja má, hvernig vildi þetta til; af hverju hafa íslensk fyrirtæki náð þessum árangri? Það er ekki eitt afgerandi svar til við þeirri spurningu, en þó er ljóst að grunnurinn liggur í nánu samstarfi íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi og iðn- og tæknifyrirtækja.

Til að íslenskur sjávarútvegur haldi velli á alþjóðlegum markaði, þar sem 98% af íslensku sjávarfangi eru seld, þarf sífellt að vera að fjárfesta í betri skipum og öðrum búnaði til sjós og lands. Samstarf fyrirtækjanna byggist á þessari staðreynd. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa leitað í smiðju íslenskra iðn- og tæknifyrirtækja eftir fjölbreyttum lausnum, til dæmis skipum, vinnslulínum og kælingu. Lausnir hafa verið þróaðar með þarfir sjávarútvegsfyrirtækjanna í fyrirrúmi. Þegar hún er fundin og búið er að fullgera hana hér á landi, er hægt að huga að útflutningi. Það hefur verið gert og það hefur gengið vel. Þannig hafa tæki og tækjabúnaður til dæmis verið seld til Færeyja, Noregs og Rússlands fyrir tugi milljarða króna á undanförnum árum.

En hvaða beinu áhrif hefur íslenskur sjávarútvegur haft hér á landi í þróun og afkomu þessara fyrirtækja? Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fengu Deloitte til að gera úttekt á hagrænum áhrifum af þjónustu innlendra iðn- og tæknifyrirtækja við íslenskan sjávarútveg. Þar kemur fram að á árinu 2018 var framlag þessara iðn- og tæknifyrirtækja til landsframleiðslu sem rekja má til þjónustu við íslenskan sjávarútveg, alls 19,4 milljarðar króna. Beint framlag til hins opinbera nam 5,1 milljarði króna. Þetta eru stórar tölur og ánægjulegar.

Sú þróun sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum hefur gert þetta mögulegt. Sitt sýnist hverjum um fyrirkomulag við fiskveiðar, en fullyrða má að vöxt iðn- og tæknifyrirtækja má meðal annars þakka tryggum fiskveiðiréttindum og fjárfestingum sjávarútvegsfyrirtækja – fjárfestingum sem ráðist hefur verið í til þess að treysta og viðhalda stöðu á erlendum mörkuðum. Íslenskur sjávarútvegur á allt sitt undir því. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að ræða fyrirkomulag á veiðum og vinnslu, en miklar tilfæringar á hornsteinum kerfisins myndu hafa neikvæð áhrif á þetta ábatasama samhengi sem hér hefur verið lýst. Það yrði allra tap.

 

Deila: