Meira fer utan í gámum

Deila:

Hlutfall útflutts fisk sem fer óunninn utan í gámum miðað við heildarverðmæti landaðs fiskafla hefur farið hækkandi undanfarna mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands jókst þetta hlutfall um 71,3% í október síðastliðnum, þegar útflutningsverðmæti gámafisksins fór í 818 milljónir króna. Í sama mánuði árið 2017 var verðmæti þessa útflutnings 478 milljónir króna.

Ef litið er á síðustu 12 mánuði frá október síðastliðnum aftur í tímann er verðmæti gámafisksins 5,5 milljarðar króna og hefur vaxið um 27% miðað við 12 mánaða tímabil þar á undan.

Sé litið á aðra ráðstöfun aflans var verðmæti fisks landaðs til eigin vinnslu 6,4 milljarðar í október síðastliðnum, sem er það sama og í sama mánuði árið árið. Þegar litið er á 12 mánaða tímabilið frá október og til baka, er verðmæti afla til eigin vinnslu 70 milljarðar sem er 18% vöxtur. En samanburður á þessum tímabilum er erfiður vegna verkfalls sjómanna 2017. Það á sömuleiðis við um aðra ráðstöfun landaðs afla.

Verðmæti landaðs fisk á markaði til vinnslu innan lands var í október 1,9 milljarðar króna, sem er vöxtur um 17%. Því veldur bæði hærra fiskverð og meira magn eins og einnig á við um síðasta 12 mánaða tímabil.

Verðmæti sjófrysts fisks heldur sínu og gott betur þrátt fyrir fækkun frystitogara. Þannig var verðmæti afla frystiskipa í október 2,9 milljarðar króna, sem er vöxtur um 15%. Á 12 mánaða tímabili er verðmætið rétt tæpir 30 milljarðar, sem er nánast óbreytt frá næsta tímabili þar á undan.

 

Deila: