Rosalega flott síld

Deila:

Lokið var við að vinna 800 tonn af síld úr Bjarna Ólafssyni AK í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað fyrir helgina. Um líkt leyti kom Börkur NK með 1150 tonn af síld sem fékkst í þremur holum norðan í Glettinganesflakinu. Hálfdan Hálfdanarson, skipstjóri á Berki, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar að þarna hafi mikil síld verið á ferðinni.

„Það var mikið að sjá og afar sterkar torfur. Við vorum einungis í 10 klukkutíma á miðunum þannig að veiðin gekk vel. Síðan tekur um það bil þrjá tíma að sigla í land þannig að þetta er afskaplega þægilegt,“ segir Hálfdan.

Jón Gunnar Sigurjónsson, yfirverkstjóri í fiskiðjuverinu, segir að síldin sem nú berst að landi sé úrvalshráefni. „Þetta er rosalega flott síld. Hún gerist ekki flottari. Síldin fer öll í vinnslu og meðalvigtin er 385 grömm. Þá er nánast engin áta í henni. Vinnslan gengur afar vel þannig að þetta er allt með albesta móti,“ segir Jón Gunnar.

 

Deila: