Mest af plasti í sjónum tengist sjávarútvegi

Deila:

Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum skráð kerfisbundið magn sjáanlegs plasts sem kemur í veiðarfæri við rannsóknaveiðar stofnunarinnar. Mikilvægt er að geta greint uppruna plastsins til að hægt sé að beina sjónum í rétta átt þegar kemur að því að fyrirbyggja að plast berist í hafið. Megnið af því plasti sem kemur í veiðarfæri við rannsóknaveiðar stofnunarinnar er tengt sjávarútvegi. Algengast er að finna spotta af ýmsu tagi og netadræsur (blátt og svart á myndinni) en einnig alls kyns brot úr fiskikörum og slíku (rautt á myndinni). Rusl af öðrum uppruna en sjávarútvegi (grænt) kom í minna mæli í veiðarfæri en var í þó nokkrum þéttleika á sumum stöðum.

Á seinustu 25 árum hefur plastframleiðsla í heiminum rúmlega þrefaldast og ef  áfram heldur sem horfir kann plast í heimshöfunum að vega meira en fiskistofnar árið 2050. Plastúrgang er að finna um nær allan sjó og hann hefur borist til fjarlægra staða eins og heimskautanna og djúpsjávar heimshafanna. Plast leysist ekki upp heldur brotnar það niður í smærri og smærri agnir. Áhrifin sem plast hefur á umhverfi sjávar eru bæði margbreytileg og afdrifarík.

Plastúrgangur endar að stórum hluta í heimshöfunum og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarlífverur. Þær geta fest sig í gömlum netum, tógum eða plastfilmum, kafnað eða étið ýmis konar plast í misgáningi. Lítið er enn sem komið vitað um það hvernig örplast berst um flókinn fæðuvef heimshafanna en rannsóknir hafa sýnt að plastagnir hafa áhrif á ýmsar sjávarlífverur m.a. á efnaupptöku á frumustigi, eru bólguvaldar, valda minnkun á fæðunámi og hafa áhrif á innkirtlastarfsemi. Þetta er m.a. vegna þess að plastagnir geta innihaldið eiturefni sem notuð eru við framleiðsluna til að tryggja sveigju, varanleika eða eldtefjandi efni.

Deila: