Ekki alltaf dans á rósum

Deila:

Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. Fyrir fyrirtækið pistla um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér verður fjallað um mikla rekstrarerfiðleika Síldarvinnslunnar á níunda áratug síðustu aldar.

Rekstur öflugra sjávarútvegsfyrirtækja hefur almennt gengið vel síðustu ár en því fer fjarri að svo hafi alltaf verið. Til dæmis reyndist níundi áratugur síðustu aldar sjávarútvegsfyrirtækjum afar erfiður og þar var Síldarvinnslan svo sannarlega ekki undanskilin.Strax í upphafi áratugarins hrönnuðust vandamálin upp og skuldbreytingar voru gerðar hjá mörgum fyrirtækjanna fyrir opinberan atbeina eftir afar erfiðan rekstur á árunum 1981-1983. Fullyrt var að skuldbreytingar hefðu jafnvel verið gerðar hjá fyrirtækjum sem voru með slæma eiginfjárstöðu. Áfram héldu erfiðleikarnir og reyndist afkoma ársins 1985 vera með lakasta móti. Þessi slæma afkoma gerði það að verkum að útilokað var fyrir mörg fyrirtækin að standa undir lánum og upplýst var að nú væri staðan þannig að þau ættu jafnvel ekkert eigið fé. Bankastjórar greindu frá því að hjá þessum fyrirtækjum væri ekki unnt að skuldbreyta vegna þess að þau væru eignalítil eða eignalaus og hefðu engin veð til að bjóða. Þegar hér var komið sögu var farið að óttast um tilveru sjávarútvegsfyrirtækja víða um land. Rekstur þeirra hékk á horriminni og var reyndar algerlega háður velvild og skilningi bankastofnana. Hér var um grafalvarlegt mál að ræða vegna þess að mörg þessara fyrirtækja gegndu lykilhlutverki í atvinnulífi viðkomandi byggðarlaga.

SVN Mbl_1986

Hinn 4. júlí árið 1986 sló Morgunblaðið upp frétt á baksíðu þar sem sagði að verst stöddu frystihúsin á landinu skulduðu 300-800 milljónir króna (1,9 – 5,1 milljarðar króna á núvirði). Í fréttinni voru talin upp þau fyrirtæki sem verst voru stödd og voru þau eftirtalin: Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað, Meitillinn hf. í Þorlákshöfn, Hraðfrystihús Keflavíkur hf., Einar Guðfinnsson hf. í Bolungarvík, Búlandstindur á Djúpavogi og Freyja hf. á Suðureyri.  Sagði Morgunblaðið að greiðslustaða þessara fyrirtækja væri mjög erfið, skuldir þeirra miklar og sum þeirra með neikvæða lausafjárstöðu. Til dæmis væru skuldir Síldarvinnslunnar nálægt 800 milljónum og annarra fyrirtækja sem nefnd höfðu verið á bilinu 300-500 milljónir. Samkvæmt upplýsingum frá bankastjóra sem blaðið ræddi við gátu bankar ekkert gert fyrir þessi fyrirtæki vegna þess að þau væru eignalítil eða eignalaus. Eins kom fram í umfjöllun blaðsins að verulegur hluti vandans hefði skapast á árunum 1978 og 1979 þegar fyrirtækin tóku dollaralán til framkvæmda en síðan hefði dollarinn hækkað mikið á sama tíma og fiskafli hafði dregist saman.

Í þessari frétt Morgunblaðsins kom fram að ríkisstjórnin hefði fjallað sérstaklega um vanda þeirra 22 sjávarútvegsfyrirtækja sem verst stæðu en einnig kom fram að staða fyrirtækja væri misjöfn. Vanda sumra væri unnt að leysa með tiltölulega einföldum aðgerðum banka, Byggðastofnunar og Fiskveiðasjóðs en vanda annarra væri erfiðara að leysa og í sumum tilvikum væri vandinn grafalvarlegur.

Strax daginn eftir birtust í Morgunblaðinu viðtöl við forsvarsmenn flestra þeirra fyrirtækja sem helst höfðu verið nefnd til sögunnar í umræddri frétt. Þar á meðal var rætt við Finnboga Jónsson framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar en hann hafði tekið við því starfi þremur dögum áður en Morgunblaðsfréttin birtist. Finnbogi sagði meðal annars í viðtalinu:

Það er rétt að heildarskuldir Síldarvinnslunnar um síðustu áramót voru um 800 milljónir króna (5,1 milljarður á núvirði). Skuldir fyrirtækja verður hins vegar að skoða í hlutfalli við raunverulegar eignir og þá verðmætasköpun sem á sér stað í viðkomandi fyrirtæki. Miðað við síðasta ár er Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað stærsta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki landsins og um leið eitt af stærstu fyrirtækjum í landinu. Fyrirtækið gerir út 5 stór fiskiskip, rekur stórt frystihús, umfangsmikla saltfiskverkun og eina afkastamestu loðnuverksmiðju landsins. Auk þess sem það hefur á sínum snærum ýmsa iðnaðarstarfsemi sem tengist sjávarútvegi. Heildarvelta fyrirtækisins á síðasta ári var um einn milljarður króna og beinar gjaldeyris- og útflutningstekjur um 700 milljónir króna. Samkvæmt útreikningum endurskoðanda okkar eru raunverulegar eignir félagsins umfram skuldir um 300 milljónir króna (1,9 milljarðar á núvirði), sem verður að teljast mjög viðunandi eiginfjárstaða í þessari atvinnugrein.

Í viðtalinu lagði Finnbogi áherslu á að vandi Síldarvinnslunnar fælist ekki í neikvæðri eiginfjárstöðu eða miklum skuldum miðað við verðmætasköpun. Vandinn fælist fyrst og fremst í alltof þungri greiðslubyrði langtímalána  og miðað við lánsfjárstöðuna væri fyrirtækinu ætlað að greiða yfir helming af öllum langtímalánum á næstu þremur árum. Slík greiðslubyrði af eignum væri fráleit ekki síst vegna þess að eignirnar ættu að minnsta kosti 15 ára líftíma.

Taldi Finnbogi að lausn vandamálsins fælist í því að létta á vaxta- og greiðslubyrðinni. Sagði hann að við núverandi aðstæður færi allur tími stjórnenda fyrirtækjanna í að bjarga greiðslum frá degi til dags og gera ráðstafanir til að bjarga þeim frá þroti. Á meðan slíkt ástand varaði gæfust engin tækifæri til að hyggja að arðbærum fjárfestingum eða finna leiðir til að bæta rekstrarskilyrði, en ýmsir möguleikar væru til í þeim efnum.

Næstu árin glímdi Síldarvinnslan við erfiða efnahagslega stöðu og þurfti fyrirtækið í reynd að lúta vilja lánardrottna í einu og öllu. Á hverju ári var háð varnarbarátta. Upp úr 1990 fór hagurinn heldur að vænkast og að því kom að unnt var að fjárfesta og bæta framleiðslutækin þannig að mögulegt var að hámarka þau verðmæti sem unnin voru úr hráefninu sem barst á land. Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar hófu að byggja fyrirtækið upp með kaupum á aflaheimildum og náðu þannig að nýta fjárfestingar þess betur en áður. Þannig var lagður grunnur að öflugu fyrirtæki sem hefur verið í fremstu röð sjávarútvegsfyrirtækja í landinu. Ef til vill er þetta líka ein helsta ástæða þess að Síldarvinnslan er eina fyrirtækið af þeim sem nefnd voru í umræddri Morgunblaðsgrein sem enn er starfandi.

Þessi frásögn ætti að minna menn á að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja eins og Síldarvinnslunnar hefur ekki alltaf verið dans á rósum.
Myndina af byggingu frystigeymslunnar tók Jóhann Gunnar Kristinsson.

 

 

Deila: