-->

Þykir ofsalega vænt um íslenskan sjávarútveg

Maður vikunnar byrjaði 13 ára að slægja fisk hjá Stáli og hníf á Ísafirði. Síðan hefur hann verið beintengdur sjávarútveginum, hvort sem er í vinnu eða námi. Honum þykir vænt um sjávarútveginn en „Umræðan finnst mér oft á tíðum vera á miklum villigötum og alltof margir sem kokgleypa bullið í ákveðnum áróðurseggjum án þess að kynna sér málefnin almennilega.“

Nafn:

Freysteinn Nonni Mánason.

Hvaðan ertu?

Ísfirðingur í húð og hár.

Fjölskylduhagir?

Er í sambúð með Hafdísi Elvu Einarsdóttur og við eigum saman eina stelpu, hana Marín Birtu Freysteinsdóttur.

Hvar starfar þú núna?

Ég er svæðissölustjóri hjá Skaginn 3X, sem er framúrskarandi tæknifyrirtæki á Íslandi. Fyrirtækið starfar að mestu  í kringum sjávarútveg og bíður upp á lausnir allt frá einstökum vörum og allt upp í heildarvinnslulausnir.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég var 13 ára þegar ég byrjað að slægja fisk hjá Stál og hníf vestur á Ísafirði. Þetta voru ótrúlega skemmtilegir tímar og ég kynntist skrautlegu fólki. Þó það sé ekki langt síðan að þá var þetta hörku vinna af gamla skólanum, vinna meira og minna allan sólahringinn, en ég og vinnufélagarnir áttum þó aldrei pening eftir mánuðinn, kannski vegna þess að keyptar voru sælur (sem eru local samlokur á Ísafirði) og sígó fyrir allan peninginn til þess að halda sér gangandi í vinnunni 😃

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Frá 13 ára aldri hef ég alltaf viljað vinna við eða í kringum sjávarútveg. Ég veit ekki hvort að þetta sé í blóðinu, sé tengingin við Ísafjörð, tenging við fólkið í greininni eða einfaldlega tengingin við fiskana sem gerir það að verkum að ég hef unnið meira og minna við og í kringum sjávarútveg allan minn starfsferil. Ég fór einnig að læra sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri árið 2014 og er nú einnig í MS námi, Marine Resource Management við Háskóla Íslands. Mér þykir allavega ofsalega vænt um íslenskan sjávarútveg og er mjög stoltur af þeim góða árangri sem við höfum náð í gegnum tíðina. Ég hef því mikinn áhuga fyrir því að taka þátt í því að gera íslenskan sjávarútveg ennþá betri, hvort sem um er að ræða rekstur, fiskeldi, nýsköpun eða þegar að kemur að auknum rannsóknum við lífríki sjávar.

En það erfiðasta?

Það erfiðasta finnst mér hlusta á þá neikvæðu umræðu oft á tíðum, sem hefur skapast hér á íslandi varðandi fiskeldi og íslenskan sjávarútveg. Umræðan finnst mér oft á tíðum vera á miklum villigötum og alltof margir sem kokgleypa bullið í ákveðnum áróðurseggjum án þess að kynna sér málefnin almennilega.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Við félagarnir rifjum reglulega upp eitt skemmtilegt atvik, þegar að við vorum að klára að ganga frá einn vinnudaginn og lyftaramanninum okkar lá svo svakalega á að komast á djammið. Lyftarinn sem við notuðumst við var eldgamall Toyota lyftari, en lyftaramaðurinn ætlaði að taka góða handbremsubeygju fyrir utan vinnsluna og leggja lyftaranum síðan í stæði. Lyftarinn valt á hliðina og héldum við þá að gamli lyftarinn væri loksins ónýtur og við fengjum að heyra það frá yfirmanninum okkar. Við réttum lyftarann við með öðrum lyftara, en gamli lyftarinn fór aftur í gang eins og enginn væri morgundagurinn. Nokkrum árum seinna kom gamli yfirmaðurinn til okkar og spurði okkur hvort að gamli lyftarinn hafi einhvern tíman oltið? Við svöruðum því að sjálfsögðu neitandi en spurðum hann hinsvegar af hverju hann væri að spyrja. Hann svaraði því að lyftarinn væri ennþá í toppstandi þrátt fyrir aldur og fyrri störf en vélin og mótorarnir væru hinsvegar í bútum á rúi og stúi og því algjörlega óskiljanlegt að lyftarinn væri enn starfshæfur.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Bjarni Jón Sveinsson er klárlega eftirminnilegasti vinnufélaginn. Hann var yfirmaður minn á Fiskmarkaðnum á Ísafirði í fjölda ára.

Hver eru áhugamál þín?

Áhugamálin mín eru fiskur, sjávarútvegur, pólitík, fótbolti, tónlist, fjölskylda og vinir.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Fiskur.

Hvert færir þú í draumfríið?

Það væri veisla að fara til Alaska einn góðan veðurdag og skoða sjávarþorp og sjávarlífríkið á svæðinu. Ég myndi síðan ekkert slá hendinni á móti ferð til Hawaii með fjölskyldunni. 😉

 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Kvótar í uppsjávarfiski um hálf milljón...

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um veiðar íslenskra skipa á makríl...

thumbnail
hover

Afli af grásleppu verði ekki meiri...

Hafrannsóknastofnun leggur til að heildaraflamark grásleppu fiskveiðiárið 2019/2020 verði ekki meira en 4.646 tonn. Hafrannsóknastof...

thumbnail
hover

Erfiður en góður túr

„Þetta var erfiður en góður túr. Gengið eru okkur hagstætt og aflinn var mikill. Þetta er stærsti túrinn hjá skipum í eigu Þo...