Sekt fyrir meint verkfallsbrot

Deila:

Útgerðin Nesfiskur í Sandgerði var í gær sektuð um 1.068.164 kr. vegna meintra verkfallsbrota í tveimur skipum sínum, Sigurfara GK 138 og Sigga Bjarna GK 5.

Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis sektaði vegna brotanna, en skipstjóra Sigurfara var tilkynnt að honum bæri, samkvæmt kjarasamningi, að hafa um borð matsvein. Hann hefði verið í verkfalli og því hefði ekki verið heimilt að halda út.

Bergur Þór Eggertsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Nesfisks, segir aðgerðir verkalýðsfélagsins á gráu svæði. »Mönnum er þetta alveg heimilt og er frjálst að fara á sjó. Það er ekkert sem getur bannað þeim að nærast úti á sjó,« segir hann. Ekki sé skylt að hafa matsvein með og enginn hafi gengið í störf hans.

Hvað Sigga Bjarna GK 5 varðar segir Bergur Þór að þar hafi matsveinn verið með í för. Hann borgi þó í Skipstjóra- og stýrimannafélagið og sé því ekki í verkfalli.

Bergur Þór segir að enginn í áhöfnum skipanna hafi talið sig vera í verkfalli.

Bergur Þór segir að skipin verði í höfn í dag, en fyrirtækið muni leita til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í dag vegna aðgerðanna.

Frá þessu var greint í Morgunblaðinu í dag.

Deila: