Mest aflaverðmæti fyrir norðan og austan

Deila:

Tæplega tvöföldun makrílafla í september síðastliðnum hefur mikil áhrif á verðmæti landaðs afla eftir landshlutum. Fyrir vikið eykst aflaverðmæti á Norðurlandi eystra og Austurlandi verulega en dregst saman í öðrum landshlutum. Makrílnum er mest landað í þessum tveimur landshlutum.

Verðmæti landaðs afla á öllu landinu dróst saman í september um 1,9% miðað við sama mánuð í fyrra. Þrátt fyrir það jókst verðmætið á Norðurlandi eystra um 43,1% og varð alls 2,7 milljarðar og var það mesta verðmæti allra landshluta. Reykjavík, sem oftast trónir á toppnum, er nú í öðru sæti með 2,3 milljarða, sem er samdráttur um 21,7%. Austurland er svo í þriðja sæti með verðmæti landaðs afla upp á 2,1 milljarð, sem er vöxtur um 21,5%.

Næst koma Suðurnes með 1,5 milljarð sem er samdráttur um 32,6% og síðan Suðurland með 1,1 milljarð, sem er samdráttur um 1,5% og þar heldur líklega makríll verðmætinu uppi. Á Norðurlandi vestra var landað afla að verðmæti 741 milljón króna, sem er samdráttur um 2,7%. Á Vestfjörðum var verðmætið 573 milljónir og dróst saman um 7,8% og Vesturland rekur lestina með 446 milljónir sem er 19,2% minna en í september í fyrra.

Eins og áður sagði endurspegla þessar breytingar bæði sveiflur í aflabrögðum eftir tegundum, mismunandi hlutfall landaðs afla úr vinnsluskipum og lækkun á fiskverði. Þannig aukast verðmæti sjófrystingar milli septembermánaða um 13,6%, sem má rekja til aukinnar makrílfrystingar á sjó í ár.

Deila: