Þrepaskipt veiðigjald – beðið eftir lækkun

Deila:

Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda nýverið var þung umræða um veiðigjald.  Stjórnarmenn furðuðu sig á því að stjórnvöld hafi ekki enn efnt yfirlýsingar um lækkun veiðigjalds.  Rekstrarvandi lítilla og meðalstórra útgerða væri gríðarlegur og æpti hreinlega á aðgerðir.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt:

Stjórn LS gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir aðgerðaleysi gagnvart rekstrarerfiðleikum lítilla og meðalstórra útgerða.  Afleiðingar þess koma í ljós á degi hverjum þegar aðilar gefast upp.

LS hóf að benda á fyrirsjáanlegan vanda fyrir einu ári.  Félagið náði hljómgrunni meðal stjórnvalda sem gerðu sér grein fyrir vandanum.

Við skipan nýrrar ríkisstjórnar virtist velvilji til aðgerða vaxa, ekki síst þegar forsætisráðherra tók undir sjónarmið LS að þrepaskipta veiðigjaldinu.

Greinargerð

Nokkuð er um liðið síðan LS sendi frá sér hugmyndir um útfærslu á þrepaskiptu veiðigjaldi.  Aðferðin byggir á að afsláttur nái eingöngu til báta þar sem afli er undir 2.000 þorskígildum reiknað til óslægðs afla.

Afsláttur fyrir yfirstandandi fiskveiðiár verði miðaður við afla á síðastliðnu fiskveiðiári, sem skipar bátum í ákveðna afsláttarflokka.  Útgerðir báta með afla undir 500 þorskígildistonnum fái mestan afslátt.

Gert er ráð fyrir að afsláttarkerfi sem hér er kynnt komi í stað þess sem nú er.

Á fiskveiðiárinu 2016/2017 nam heildarafsláttur 1.094 milljónum, sem skiptist í „vaxtaberandi“ afslátt 927 milljónir og fastan afslátt 167 milljónir.  Sá fyrrnefndi hefur verið afnuminn, en síðari er í gildi í dag.

Það er skoðun stjórnar LS að lækka þurfi veiðigjald um 600 – 800 milljónir á yfirstandandi fiskveiðiári og það sé gert á grundvelli hins nýja afsláttarkerfis.

Löndun í Grindavík. Ljósmynd Hjörtur Gíslason

Deila: