Góð veiði í makríl og kolmunna í fyrra
Fiskistofa hefur tekið saman yfirlit yfir afla í deilistofnum á árinu 2016 í norsk-íslenskri síld, makríl, úthafskarfa á Reykjaneshrygg og kolmunna. Góð veiði var í makríl og kolmunna á nýliðnu ári en dræm í norsk-íslenskri síld og úthafskarfa.
Enn lægð í norsk-íslenska síldarstofninum
Íslendingar veiddu á síðasta ári 50,2 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld. Þetta er lítilsháttar aukning frá árinu á undan þegar aflinn var 42,6 þúsund tonn.
Mest af aflanum úr norsk-íslenska síldarstofninum var veiddur úr íslenskri lögsögu eða 49,4 þúsund tonn (98,4% aflans). Úr færeyskri lögsögu veiddust 557,2 tonn og á alþjóðlegu haf-svæði veiddust 185 tonn.
Aflamark íslenskra skipa í norsk-íslenskri síld á yfirstandandi ári verður tæplega 103 þúsund tonn og er líklegt að aflinn muni að sama skapi aukast verulega.
Aflahæstu skipin á síðasta ári voru Börkur NK-122 með 5.284 tonn og Beitir NK-123 með 4.885 tonn. Bæði þessi skip eru gerð út af Síldarvinnslunni hf.
Góður afli í makríl
Makrílafli íslenskra skipa á síðasta ári var 172,2 þúsund tonn en var árið áður 169,3 þúsund tonn. Þetta var aukning uppá 1,7% milli ára. Af þessum afla voru 162,6 þúsund tonn fengin úr íslenskri lögsögu eða 94,4% aflans. Makrílafli íslenskra skipa á alþjóðlegu hafsvæði var 11,4 þúsund tonn og afli í grænlenskri lögsögu nam 6,8 þúsund tonn.
Makrílafli síðasta árs er sá næst mesti sem íslensk skip hafa veidd úr makrílstofninum en árið 2014 veiddu þau 173.560 tonn.
Aflahæstu skipin á makrílveiðunum á síðasta ári voru Venus NS-150 með 11.579 tonn og Víkingur AK-100 með 11.041 tonn.
Lítil veiði í úthafskarfa
Enn dregur úr afla í úthafskarfa og hefur hann aldrei verið minni síðan íslensk skip hófu beina sókn í úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Á síðustu vertíð veiddu þau 2.830 tonn af úthafskarfa samanborið við 2.128 tonn árið áður sem var langminnsti afli íslenskra skipa í úthafskarfa á svæðinu síðan þau hófu sókn í þann rauða á svæðinu. Það er því ljóst eins og má sjá á myndinni hér til hliðar að mikið samdráttartímabil er í afla á úthafskarfa á Reykjanes-hrygg. Þess má geta að aflamark íslenskra skipa á nýliðnu ári var 2.784 tonn og fullnýttu íslensk skip því heimildir sýnar í úthafskarfanum.
Þess má geta að á velmektarárum úthafskarfaveiðanna á Reykjaneshrygg fór heildarafli íslensku skipanna oft yfir 40 þúsund tonn. Aflinn á síðustu tveimur vertíðum er því aðeins svipur hjá sjón.
Góð veiði í kolmunna
Á síðasta ári veiddu íslensk skip 186.919 tonn af kolmunna. Þetta er nokkuð minni afli en á árinu 2015 þegar aflinn var 214.890 tonn. Fyrir komandi vertíð hefur verið ákveðið að upphafsveiði á kolmunna verði 150.000 tonn en leyfilegur heildarafli verður endanlega ákveðinn þegar fyrirliggja ákvarðanir annarra ríkja um sinn heildarafla.
Skiptingu afla íslenskra skipa í úthafstegundum eftir veiðisvæðum er hægt að skoða hér.