Fiskur í hátíðarbúningi

Deila:

Blessuð ýsan er alltaf jafn góður matur og alltaf er hægt að finna nýjar leiðir til að matreiða hana. Gott er svo eftir allt kjötátið yfir jól og áramót að snúa sér að fiskinum. Þó verkfall sjómanna standi nú yfir og sé komið á fjórðu viku er alltað hægt að nálgast ýsuna, annaðhvort ferska af smábátum eða frysta. Því mælum við með fiski í matinn þessa dagana og bendum á að það er gott fyrir heilsuna að borða fisk að minnsta kosti tvisvar í viku. Þessa uppskrift fundum við á netinu og svona til að trappa sig aðeins niður frá jólum og áramótum bjóðum við nú upp á rétt sem er nefndur fiskur í hátíðarbúningi.

Innihald:

Ýsuflök (eitt stórt eða tvö lítil)
1 banani
2 dl rjómi
2 egg
100 gr rækjur
1 paprika
Ostur
Hveiti
Salt og pipar
Kjöt- og grillkrydd
Rasp

Aðferðin:

Eggin eru þeytt með ½ dl af rjóma og hveitið hrærst út í.
fiskurinn er kryddaður beggja megin með salti og kjöt- og grillkryddi.
Fiskinum er dýft í rjómablönduna og steiktur við vægan hita á pönnu örlitlastund. Hann er síðan lagður í eldfast fat.
Rækjurnar, bananinn og paprikan eru steikt í smjöri og lögð ofan á fiskinn.
Afgangurinn af rjómanum er settur yfir og síðan rifinn ostur og rasp.
Bakað við 200°c í um það bil 20 mínútur. Gott að leggja álpappír yfir til að byrja með.

Deila: