Hlutaskiptakerfi eða fastlaunakerfi

Deila:

Í umræðunni síðustu misserin í tengslum við kjaramál sjómanna og verkfall þeirra hefur gætt mikils misskilnings um ýmis grundvallarmál sem snúa að því launakerfi sem sjómenn búa við. Þetta segir Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS, en í grein hér að neðan fer hann yfir helstu atriði hlustaskiptakerfi sem notað er til að ákvarða laun sjómanna.

haukur-thor-hauksson

Launakerfi íslenskra sjómanna byggist á hlutaskiptum sem þýðir að sjómaður á fiskiskipi fær ákveðna hlutdeild í því aflaverðmæti sem skipið sem hann vinnur á kemur með að landi, í stað þess að fá föst mánaðarlaun. Hlutaskiptakerfið þýðir í reynd að ef vel fiskast og skilyrði á mörkuðum fyrir sjávarafurðir eru góð að þá hækka laun sjómanna – hlutdeild þeirra reiknast af vaxandi verðmætum. Ef illa fiskast eða skilyrði á mörkuðum versna þá lækka laun sjómanna þar sem hlutdeild þeirra reiknast af minnkandi verðmætum. Tekjur útgerða og laun sjómanna haldast í hendur.

Í kjölfar efnahagshrunsins sem hófst haustið 2008 hrundi íslenska krónan sem þýddi að útflutningstekjur hækkuðu mikið í íslenskum krónum talið og þess nutu sjómenn ríkulega í auknum tekjum vegna fyrrnefnds hlutaskiptakerfis. Kaupmáttur þeirra jókst á sama tíma og kaupmáttur flestra annarra landsmanna minnkaði verulega.

Nýsmíðaákvæði og olíuverðsviðmið eru hugtök sem töluvert hafa verið rædd undanfarið. Um er að ræða hugtök sem finna má í kjarasamningum á milli sjómanna og útgerða. Þessi hugtök skipta máli þar sem þau geta haft áhrif á hlutdeild sjómanna í aflaverðmæti skips. Nýsmíðaákvæði og olíuverðsviðmið eru til komin vegna samninga fyrri tíðar á milli útgerða og sjómanna.

Nýsmíðaákvæðið snýst um það að ef útgerð kaupir nýtt skip skal hlutur sjómanns vera 10% lægri en samningsákvæði kveður á um í allt að 7 ár, þó einungis ef umrætt skip nær að meðaltali ákveðnu lágmarki aflahlutar á úthaldsdag. Fyrrgreint merkir að einungis bestu plássin í hverjum skipaflokki eiga möguleika á að falla undir nýsmíðaákvæðið. Þannig hækka yfirleitt laun á nýju skipi sem uppfyllir skilyrði nýsmíðaákvæðis.

Olíuverðsviðmið getur haft áhrif til hækkunar eða lækkunar á skiptahlut til sjómanna eftir því hvort olía hækkar eða lækkar í verði umfram ákveðin gildi. Hækkun eða lækkun á skiptahlut fer þó aldrei umfram ákveðin mörk.

Í umræðu um kjaramál sjómanna hefur undirritaður verið spurður að því hvort honum þætti réttlátt ef laun flugmanns tækju mið af þróun olíuverðs eða því hvort flugfélagið sem hann starfaði hjá endurnýjaði flugvélaflotann. Spurningarnar snúa að því hvort réttlátt þætti að flugmaður myndi „taka þátt í“ olíukostnaði og flugvélakaupum flugfélagsins sem hann ynni fyrir?

Þessi samanburður lýsir grundvallarmisskilningi í umræðunni.

Flugmaður starfar á föstum mánaðarlaunum, ólíkt sjómanni. Flugmaður fær jafn mikið í mánaðarlaun sama hvort flugvélin sem hann flýgur er full setin eða ekki. Ef flugmaður væri á hlutaskiptakerfi líkt og sjómaður og flugfélagið keypti nýja flugvél sem tæki tvöfalt fleiri farþega í sæti, þá er einsýnt að flugmaðurinn hefði líklegast mikið upp úr því að vera á hlutaskiptakerfi í stað fastra launa. Hann fengi hlutdeild í tekjunum sem flugvélin skapaði – og því fleiri farþega sem flugvélin tæki því hærri laun fengi hann.

Hlutaskiptakerfi felur í sér sveiflur í launum og nú um stundir er það fyrst og fremst styrking krónunnar sem veldur niðursveiflu í tekjum útgerða og launum sjómanna.

 

 

Deila: