Binda vonir við nýjan loðnuleiðangur

Deila:

Sú ákvörðun sjávarútvegsráðherra að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um æskilegan hámarksafla á loðnu á komandi vertíð, þýðir að heildarkvótinn verður 57.000 tonn. Þar af koma aðeins 12.100 tonn í hlut íslenskra skipa. Að teknu tilliti til tegundatilfærslna standa aðeins eftir rúmlega 11.500 tonn af loðnu sem hlutur íslenska uppsjávarveiðiskipa á vertíðinni.

,,Ef það finnst ekki meira magn af loðnu og kvótinn verður ekki aukinn, koma aðeins um 2.000 tonn í hlut skipa HB Granda,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri félagsins. Hann líkt og fleiri bindur vonir við að meira finnist af loðnu en hagsmunaaðilar hafa fundað með sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar um að farinn verði nýr rannsóknaleiðangur í næstu viku. Markmið hans verði að kortleggja útbreiðslusvæði loðnunnar norðvestur og norður af landinu. Er talið að leiðangur nú gefi gleggri mynd af stöðu mála en hafís og veður torvelduðu loðnuleit á hluta svæðisins í rannsóknarleiðangrinum sem farinn var á dögunum.

Ef frá eru talin hafrannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson tóku engin íslensk uppsjávarskip þátt í rannsóknaleiðangrinum sem stóð yfir dagana 11. til 20. janúar sl. Var grænlenska skipið Polar Amaroq fengið til þess verkefnis. Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar segir ma.:

,,Rannsóknasvæðið var landgrunnið og landgrunnsbrúnin frá Grænlandssundi, austur með Norðurlandi og allt að norðanverðum Austfjörðum. Gerðar voru 2 mælingar á veiðistofninum. Sú fyrri fór fram dagana 12. – 15. janúar og fannst loðna frá sunnanverðum Vestfjörðum norður um og austur að Kolbeinseyjarhrygg. Þar fyrir austan varð ekki vart við fullorðna loðnu. Þar sem veður var slæmt þegar mælingunni lauk biðu skipin á Siglufirði þar til veður batnaði. Síðari yfirferðin fór fram dagana 17. – 20. janúar á svæðinu frá Kolbeinseyjarhrygg og vestur um. Veður var viðunandi en ís hafði færst yfir hluta mælingasvæðisins í seinni yfirferðinni.

Um 398 þúsund tonn af kynþroska loðnu mældust í fyrri yfirferðinni og mæliskekkja (CV) var metin 0.2. Í síðari yfirferðinni mældust um 493 þúsund tonn og mæliskekkjan metin 0.23. Meðaltal þessara mælinga, 446 þúsund tonn, er mat á stærð veiðistofns.

Gildandi aflaregla, sem stjórnvöld ákváðu að taka upp vorið 2015, byggir á því að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar með 95% líkum. Tekur aflareglan tillit til óvissumats í mælingunum, vaxtar og náttúrulegrar dánartölu loðnu, auk þess sem afrán þorsks, ýsu og ufsa á loðnu er metið. Í samræmi við ofangreinda aflareglu verður heildaraflamark á vertíðinni 2016/2017 57 þúsund tonn.“
 

 

Deila: