Hver eru efnahagsleg áhrif sjómannaverkfallsins

Deila:

Hvert er tap þjóðarbúsins af sjómannaverkfalli? Erfitt er að leggja á það nákvæmt mat og líklega verður það ekki hægt fyrr en að nokkrum árum liðnum. Þó má ætla að því lengra sem líður á verkfallið og bæði viðskiptasambönd glatast og framleiðsla minnkar nálgist hið daglega tap þær 900-1300 milljónir króna sem sjávarútvegurinn skapar af verðmætum á dag að meðaltali, sé tekið tillit til beinna og óbeinna efnahagslegra áhrifa. Í þessari greiningu Sjávarklasans er varpað frekara ljósi á hin margvíslegu áhrif verkfallsins á ýmsar atvinnugreinar sem tengjast sjávarútvegi. Svo segir í inngangi greiningar Sjávarklasans á efnahagslegum áhrifum sjómannaverkfallsins, sem birt er á heimasíðu klasans.  Þar segir ennfremur:

„Þegar þetta er skrifað hefur verkfall sjómanna staðið í rétt tæpar 7 vikur. Í umræðu um neikvæðar afleiðingar þess er áherslan gjarnan lögð ýmist á sjálfar fiskveiðarnar og fiskvinnsluna eða tjónið af töpuðum útflutningstekjum sjávarafurða. Í þessu sambandi hefur verið nefnt að tapaðar útflutningstekjur nemi 640 milljónum króna á dag. Slíkir útreikningar varpa einhverju ljósi á það efnahagslega tjón sem verkfallið veldur en eru ákveðin einföldun og fjarri því að gefa nákvæma mynd af raunverulegu tjóni af verkfallinu til skemmri og lengri tíma.

Að ætla sér að meta hið sanna efnahagslega tjón af einhverri nákvæmni myndi útheimta miklar rannsóknir og því fer fjarri að það sé hlutverk þessarar greiningar. Hér verður hins vegar fjallað um ýmis önnur áhrif verkfallsins, ekki bara á sjávarútveginn og útflutningstekjur hans, heldur allar þær greinar sem eiga mikið undir sjávarútveginum, hinn svokallaða sjávarklasa.

Samdráttur eða tafir?

Í mati á beinu útflutningstekjutapi af verkfalli sjómanna þarf að gera greinarmun á hvort um sé að ræða samdrátt í veiðum eða tafir á veiðum. Ef um væri að ræða hreinan samdrátt, þ.e. að það sem ekki veiðist í dag verði yfir höfuð ekki veitt, m.ö.o. að ekki takist að fullnýta veiðiheimildir þessa veiðitímabils, væri óhætt að meta tjónið út frá töpuðum tekjum fyrir hvern verkfallsdag miðað við tekjur fyrri ára. Náist hins vegar að fullnýta allar veiðiheimildir á endanum er hið raunverulega tekjutap af útflutningi sjávarafurða minna og felst einkum í áhættu á verðlækkun. Eftir því sem líður á verkfallið aukast þó líkurnar á raunverulegum aflasamdrætti af völdum þess auk þess sem tjónið af völdum tafa á veiðum eykst. Þetta vita báðir samningsaðilar og því verður þrýstingur á að ná samningum meiri með hverjum degi sem líður.

Framundan er til dæmis (reyndar fyrirsjáanlega dræm) loðnuvertíð þar sem hver úthaldsdagur skiptir máli. Tjón vegna tafa á veiðum er hinsvegar vissulega til staðar og felst einkum í hugsanlegri verðlækkun, vannýttu fjármagni og framleiðslukosti og auknum kostnaði allra í virðiskeðjunni við að framleiða og flytja út meira magn síðar og vinna upp markaði og hillupláss. Það er dýrt að hafa fjármagn, skip, verksmiðjur og fólk iðjulaust dögum og vikum saman. Greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði nema 10 milljónum króna á dag, svo eitthvað sé nefnt, en 1440 manns hafa bæst við á atvinnuleysisskrá sökum verkfallsins. Á endanum er það nefnilega virðisauki greinarinnar sem skiptir máli fyrir samfélagið en ekki hreinar tekjur, þ.e.a.s. hversu mikil verðmæti afurðir greinarinnar skapa að frádregnum aðföngum. Þessi virðisauki bíður hnekki þegar framleiðsla fellur niður í einhvern tíma, jafnvel þótt stöðvunin verði bætt upp síðar í framleiddu magni talið.

Margföldunaráhrif sjómannaverkfallsins

Þá er ótalið óbeint tjón sem verður í öðrum öngum samfélagsins af völdum sjómannaverkfallsins. Sjávarútvegur á Íslandi er svokallaður grunnatvinnuvegur, ólíkt mörgum öðrum atvinnuvegum. Þetta þýðir að a) þau verðmæti sem hann skapar eru mun meiri en tekjur sjálfrar greinarinnar gefa til kynna og að b) það sem hann leggur til landsframleiðslunnar verður ekki bætt upp með annarskonar starfsemi ef hans nýtur ekki við. Hin óbeinu efnahagslegu áhrif felast í viðskiptum greinarinnar við fyrirtæki sem þjónusta hana eða vinna frekar úr afurðum hennar (sjávarklasann), til dæmis flutningafyrirtæki, tæknifyrirtæki, fiskmarkaði, líftæknifyrirtæki, sölufélög og umbúðaframleiðendur, en líka í svokölluðum eftirspurnaráhrifum; launum og hagnaði sem myndast í greininni og er varið til kaupa á vörum og þjónustu í samfélaginu.

Þessi óbeinu efnahagslegu áhrif eru oft kölluð margföldunaráhrif. Rannsóknir hafa sýnt að framlag sjávarútvegsins til landsframleiðslunnar þegar tekið hefur verið tillit til óbeinna efnahagslegra áhrifa er minnst 2,5 sinnum meira en tekjur greinarinnar sjálfrar gefa til kynna. Beint framlag greinarinnar til landsframleiðslu hefur verið 7-10% undanfarinn áratug en heildarframlagið hefur verið metið á bilinu 20-30% á sama tímabili. Þessi margföldunaráhrif sjávarútvegsins virka í báðar áttir. Ef virðisauki í sjávarútvegi eykst um 10 skapast verðmæti í samfélaginu í heild upp á minnst 25. Sama gildir á hinn veginn – ef virðisauki í sjávarútvegi minnkar um 10 þá minnka verðmæti í samfélaginu í heild um minnst 25.

Eins og fram hefur komið gildir þetta alls ekki um allar atvinnugreinar, er síður en svo sjálfsagt og í allri umræðu, lagasetningu og stefnumörkun í greininni þarf að taka tillit til þessa. Við gerð þessarar greiningar var haft samband við 20 stjórnendur margvíslegra þjónustu- og tæknifyrirtækja sem þjónusta sjávarútveginn með einum eða örðum hætti eða hafa beinar tekur af honum. Þessi fyrirtæki vilja oft gleymast í umræðunni um áhrif þessarar deilu og því rétt að bregða ljósi á áhrif hennar á þessi fyrirtæki. Í þeirri yfirferð kemur í ljós að farið er að gæta ýmissa neikvæðra áhrifa sem ágerast eftir því sem líður á deiluna. Þessi áhrif eru þó mjög ólík eftir greinum.“

Greiningu Sjávarklasans má lesa í heild á slóðinni http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2017/01/Greining-Sjavarklasans-Jan-2017.pdf

 

 

Deila: