Hefur vandi fiskverkafólks farið fram hjá Alþingi?

Deila:

Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins og núverandi pistlahöfundur blaðsins veltir því fyrir sér í nýjasta pistli sínum stöðun.i í kjarabaráttu sjómanna, sem bitnar mjög alvarlega á fiskverkafólki landsins. Hvort þessi vandi hafi farið framhjá þingmönnum þjóðarinnar. Pistill Styrmis fer hér á eftir:

Styrmir Gunnarsson

„Í athyglisverðri grein eftir Hjörleif Guttormsson, fyrrverandi ráðherra, sem birtist hér í blaðinu sl. fimmtudag, vitnar hann til viðtals í Der Spiegel við skozkan hagfræðing og Nóbelsverðlaunahafa, Angus Deaton, sem sagði um úrslitin í forsetakosningunum í Bandaríkjunum:

„Millistéttinni finnst hún ekki lengur eiga málsvara í Washington. Bæði Demókratar og Repúblikanar eru svo háðir peningum og fégjöfum fjármálaheimsins, lyfjafyrirtækjanna og olíufélaganna að málefni sem snerta venjulegt fólk eru ekki til umræðu.“

Nú háttar svo til í okkar samfélagi að sjómenn hafa verið í verkfalli vikum saman og fiskiskipin þar af leiðandi bundin við bryggju. Ein afleiðing þess er sú að fiskverkafólki í fiskvinnslustöðvum um land allt hefur verið sagt upp störfum og gengur nú um atvinnulaust og byggir framfærslu sína á atvinnuleysisbótum. Önnur afleiðing er sú að fjölmörg fyrirtæki um land allt, sem byggja starfsemi sína á margvíslegri þjónustu við fiskiskipaflotann og fiskvinnslustöðvarnar, hafa misst verkefni og þar með tekjur.

Enginn ræðumaður í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, hvorki hann sjálfur né aðrir þingmenn, hafði orð á þessum vanda hins almenna borgara um allt land. Ekki einn einasti. Heldur ekki þingmenn flokka, sem eru arftakar stjórnmálaflokka sem í 100 ár hafa haft það hlutverk öðrum fremur að standa vörð um hagsmuni alþýðu manna, eins og lesa má um í 100 ára sögu Alþýðuflokksins eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing, sem út kom fyrir jól.

Það er því ekki bara í Washington Donalds Trumps, sem „málefni, sem snerta venjulegt fólk eru ekki til umræðu“.

Það sama er að gerast á Alþingi Íslendinga.

Raunar kom fram í þessum umræðum áþekkt dæmi um annað mál. Það var ekki hægt að skilja Bjarna Benediktsson á annan veg en þann að hann teldi vanda heilbrigðisþjónustunnar m.a. vera fólginn í „hughrifum“, sem hefðu orðið til vegna niðurskurðar á fjárframlögum í kjölfar hrunsins.

Í huga þeirra sem hafa átt samskipti við heilbrigðiskerfið undanfarin ár á vandi þess ekkert skylt við „hughrif“. Hann er því miður harður veruleiki í fjölskyldum um Ísland allt.

Um öll Vesturlönd er fólk að reyna að skilja hvað er að gerast í afstöðu almennra borgara til samfélagsmála. Kjör Donalds Trumps til forseta Bandaríkjanna er ein ástæða þeirrar umhugsunar. Önnur er fylgisaukning hægrisinnaðra flokka í Evrópu á kostnað jafnaðarmanna og annarra vinstrimanna. Þeir þjóðfélagshópar sem einu sinni voru kallaðir verkafólk og litu á jafnaðarmenn og sósíalíska flokka sem sína málsvara, hafa yfirgefið slíka flokka og hneigjast nú til fylgis við Þjóðfylkingu Marine Le Pen í Frakklandi, Danska þjóðarflokkinn eða Frelsisflokkinn í Hollandi, svo að dæmi séu nefnd.

Hér á Íslandi birtast þessar breytingar í því að Samfylkingin, sem mynduð var með samruna Alþýðuflokks, hluta Alþýðubandalags, Þjóðvaka og Kvennalista, er hrunin og kann að vera að þurrkast út. Fylgið hefur að vísu ekki farið til einhvers nýs hægriflokks heldur sennilega til Pírata, a.m.k. yngra fólksins, og að öðru leyti til Bjartrar framtíðar og að einhverju leyti til Vinstri grænna.

Að hluta til er skýringin á fylgistapi Samfylkingar áreiðanlega sú sama og Angus Deaton vísar til varðandi Bandaríkin. Þeir þjóðfélagshópar sem áður litu til Alþýðuflokks og Sósíalistaflokks/Alþýðubandalags sem sinna málsvara gera það ekki lengur og það mat þeirra hópa var staðfest í þögn þingmanna á vinstrikantinum í stefnuumræðum á Alþingi sl. þriðjudagskvöld um vandamál fiskverkafólks í sjávarþorpum um land allt.

Í þessu samhengi er ástæða til að vekja athygli á grein eftir mann að nafni Bo Rothstein, sem er kennari við Oxford, en greinin birtist á vefnum socialeurope.eu fyrir skömmu. Þar spyr hann þessarar spurningar: Hvernig stendur á því að þrátt fyrir vaxandi ójöfnuð flykkjast kjósendur ekki til vinstri heldur þvert á móti?

Svar hans með vísun í kenningar, sem komið hafa fram, er m.a. að áherzla vinstrimanna síðustu ár og áratugi á einstaka afmarkaða þjóðfélagshópa í stað þess að undirstrika hlutskipti stærri hópa, sé að einhverju leyti skýring á þessari þróun en að öðru leyti sé hana að finna í breytingum á skynjun almennings á því hvað teljist spilling. Hún tengist ekki lengur beinum mútum heldur viðleitni til þess að skapa tilteknum hópum forréttindastöðu umfram aðra.

Í því sambandi er svo ástæða til að benda á að yfirvofandi hætta á því að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði verði lausir í febrúar var heldur ekki til umræðu á Alþingi sl. þriðjudagskvöld en sú hætta er tilkomin vegna ákvarðana Kjararáðs sl. sumar og haust um launakjör æðstu embættismanna, þingmanna og ráðherra.

Donald Trump verður ekki tíðrætt um fátækt í Bandaríkjunum. Hann er með hugann við það hvað margir hafi verið viðstaddir embættistöku hans og hvaða fjölmiðlar vestan hafs hafi haft uppi „lygar“ um það að hans dómi.

En í okkar litla umhverfi hér mætti ætla af umræðum á Alþingi að þeir sem þar sitja viti ekki af knýjandi vanda fiskverkafólks um allt land.

Hvernig má þetta vera?“

Deila: