Kæruleysi stjórnvalda

Deila:

Eftirfarandi grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, þingmann Framsóknarflokksins, um stöðuna í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna birtist í Morgunblaðinu í dag.

Lilja Alfrreðsdóttir
Sjómenn og fjölskyldur þeirra finna verulega fyrir verkfallinu sem staðið hefur í yfir sjö vikur. Fiskverkafólk í landi er að lenda í alvarlegum vandræðum vegna tekjumissis. Að auki hefur verkfallið víðtæk áhrif á þau sveitarfélög sem eru háð sjávarútvegi. Í sumum tilfellum koma um 40% tekna sveitarfélaganna beint eða óbeint frá sjávarútvegi. Af þessu má ljóst vera að talsverð óvissa ríkir hjá mörgum sveitarfélögum, þar sem þau halda að sér höndum varðandi fjárfestingar og samneyslu. Erlendir markaðir eru að glatast þar sem afhendingaröryggi ferskra sjávarafurða er ekki lengur tryggt. Samkvæmt greiningu Sjávarklasans tapast á hverjum degi 640 milljónir króna í útflutningstekjum og daglegt heildartap er nærri milljarði króna, ef deilan leysist ekki von bráðar. Miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi og tjónið mikið á meðan fiskiveiðiflotinn liggur óhreyfur við bryggju.

Óundirbúin ríkisstjórn

Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í vikunni kom fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ekki látið meta hve mikið þjóðhagslegt tjón hlýst af deilunni. Það er heldur ekki búið að kanna hvort þörf sé á mótvægisaðgerðum fyrir þau sveitarfélög sem koma verst út. Raunar er engu líkara en að sjómannaverkfallið komi ráðherra sjávarútvegsmála ekkert við, því þótt málið hafi ekki verið krufið til mergjar hefur ráðherra útilokað allar sértækar aðgerðir sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar. Slíkt kæruleysi er varasamt og getur valdið meiri þjóðhagslegum skaða af hinu langvinna verkfalli.

Mikilvægt að leysa deiluna án lagasetningar

Sjómenn hafa staðið vaktina fyrir íslenska þjóð í aldaraðir og því er mikilvægt að deilan leysist á farsælan og sanngjarnan hátt án lagasetningar. Allir hlutaðeigandi – útgerðarfyrirtæki, sjómenn og stjórnvöld – þurfa að skoða með opnum huga allar leiðir sem gætu liðkað fyrir lausn deilunnar. Mikil ábyrgð hvílir á þeim öllum og brýnt er að þessi meginstoð atvinnulífsins skaðist ekki til langframa. Stjórnvöld mega ekki stinga höfðinu í sandinn heldur verða þau að meta hið þjóðhagslega tjón strax. Sjómannadeilan ætti að vera helsta viðfangsefni stjórnvalda þessa dagana. Ríkisstjórnin getur ekki látið reka á reiðanum þegar helsta atvinnugrein landsins er í lamasessi og veldur þjóðbúinu ómældu tjóni. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er skelegg í allri sinni framgöngu og lætur vonandi til sín taka í þessu erfiða deilumáli.

 

Deila: