Lausn sjómannaverkfallsins, gjörið svo vel

Deila:

Árni Johnsen fyrrverandi alþingismaður ritar eftirfarandi grein í Morgunblaðið í dag:

Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar afnam einhliða sjómannaafsláttinn svokallaða 2009 eftir að hann hafði gilt nærri hálfa öld þótt ekki væri hann hár varð fjandinn laus og morgunljóst að einn daginn yrði allt í báli.

Árni Johnsen

Þegar sjómannaafslátturinn var settur að tilhlutan ríkisstjórnar voru sjómenn eina stétt landsins sem naut fríðinda vegna vinnu fjarri heimili og þótti eðlilegt.

Í dag njóta allar stéttir landsins skattfríðinda vegna vinnu fjarri heimili nema sjómenn. Ótrúlegt. Það er náttúrulega fáránlegt og skýtur skökku við að sjómenn skuli þannig látnir sitja á hakanum og það er mikill dónaskapur og mikil valdbeiting gagnvart sjómönnum að slíkt skuli viðgangast.

Árin 2010, 2011 og 2012 mælti ég fyrir frumvarpi á Alþingi til þess að tryggja jafnræði og réttindi sjómanna eins og annarra landsmanna, frumvarpi um skattfríðindi vegna vinnu fjarri heimilis. Frumvarpið byggðist á fyrirmyndum frá Færeyjum og Noregi og mikil vinna var lögð í málið.

Meðflutningsmenn mínir voru Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Unnur Brá Konráðsdóttir. Þetta frumvarp var ekki afgreitt endanlega en ef það hefði verið gert væri ekkert sjómannaverkfall í dag. Þetta frumvarp var hugsað til framtíðar til þess að fyrirbyggja vandamál sem hlaut að koma upp.

Ef Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Benedikt fjármálaráðherra og Þorgerður Katrín sjávarútvegaráðherra vilja taka mjög vinsamlegum ábendingum geta þau leyst sjómannaverkfallið í dag með stuttri yfirlýsingu. Verði öllum að góðu, þetta er klárt og sanngjarnt.

Hér kemur úrdráttur úr frumvarpinu, en reikna má með að tölur hafi hækkað um 20% á árunum fjórum fyrir 2016. Fríðindagreiðslur hjá öllum stéttum landsins, nema sjómönnum þar sem ekkert er, námu um 12 milljörðum árið 2016 en voru um 10 milljarðar árið 2010.

Frumvarpið

„Frumvarpið varðar breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Úrdráttur úr lagagreinum og greinargerð. Í 1.grein segir að rétt til sjómannaafsláttar hafa þeir einstaklingar sem stunda sjómennsku og eru lögskráðir í skipsrúm að því tilskildu að laun þeirra fyrir sjómennsku nemi 30% af tekjuskattsstofni þeirra hið minnsta.

Sjómannaafsláttur sjómanna á fiskiskipum skal vera 14% af þeim hluta tekjuskattsstofns sem þeim hlotnast sem endurgjald fyrir sjómannsstörf, þó að hámarki 1.360.000 kr. á ári.

Sjómannaafsláttur annarra sjómanna en sjómanna á fiskiskipum, svo sem lögskráðra sjómanna sem starfa á varðskipi, rannsóknarskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem er í förum milli landa eða er í strandsiglingum innan lands, skal vera 15% af tekjuskattsstofni að 4.100.000 kr. og 8% af næstu 7.200.000 kr., þó að hámarki samtals 863.000 kr. á ári.

Setja skal í reglugerð ákvæði um framkvæmd þessa stafliðar. Í henni skal m.a. kveða á um með hvaða hætti skuli ákvarða þann hluta tekjuskattsstofns sem kemur til útreiknings sjómannaafsláttar og hvaða gagna megi krefjast í því sambandi.

Í Færeyjum er fiskimannafrádráttur 14% af skattskyldum tekjum vegna fiskveiðistarfa að hámarki 470.000 DKR, en hafi sjómenn hærri tekjur njóta þeir ekki sérstaks fiskimannafrádráttar skv. 17. tölul. 33. gr. færeysku skattalaganna, nr. 86/1983. Fiskimannafrádrátturinn getur því orðið hæstur 65.800 DKR á hverju almanaksári.

Sjómannaafsláttur annarra sjómanna en fiskimanna, svo sem lögskráðra sjómanna sem starfa á varðskipi, rannsóknarskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem er í förum milli landa eða er í strandsiglingum innan lands, nemur 15% af reiknuðum tekjuskatti af fyrstu 200.000 DKR, en síðan 8% af reiknuðum tekjuskatti af þeim tekjum að 350.000 DKR eða að hámarki 42.000 DKR á ári.

Sjómannaafsláttur á tekjuárinu 2010 er 987 kr. á dag eða að hámarki 360.255 kr. á ári, miðað við fleiri en 245 daga á sjó. Sjómannaafslátturinn kemur á annan hátt til frádráttar annars staðar á Norðurlöndunum, þar er almennt miðað við að reikna afsláttinn af tekjuskattsstofni ársins eða reiknuðum tekjuskatti.

Í Svíþjóð er sjómannaafsláttur ákvarðaður samkvæmt lögum nr. 764/2007, sbr. lög nr. 282/1973. Afslátturinn er tvískiptur eða 35.000 SKR »i nærfart« og 36.000 SKR »i fjærfart«, en afslátturinn reiknast af tekjuskattsstofni ársins. Sjómenn eiga jafnframt rétt á sérstakri skattalækkun sem nemur 9.000 skr. »i nærfart« og 14.000 SKR »i fjærfart«. Ívilnunin dregst frá reiknuðum tekjuskatti.

Í Noregi hefur sjómannaafslátturinn nýlega verið hækkaður í 150.000 NKR fyrir bæði »kyst- og hav«. Tekjuskatturinn er 30% af skattskyldum tekjum, umfram 150.000 NKR. Tekjur sjómanna upp að 150.000 NKR eru skattfrjálsar.

Í Danmörku nær sjómannaafslátturinn til lögskráðra sjómanna. Þeir eiga rétt á 190 DKR frádrætti fyrir hvern byrjaðan dag á sjó í veiðiferðum sem standa yfir í a.m.k. 12 klst. Afslátturinn er að hámarki 41.800 DKR yfir almanaksárið og reiknast af tekjuskattsstofni ársins.

Sjómenn á Norðurlöndunum njóta því sjómannaafsláttar, en sama á við í öðrum fiskveiðiríkjum eins og Kanada og Nýja-Sjálandi þar sem sjómenn eiga rétt á sérstökum skattafslætti. Fiskveiðiþjóð eins og Íslendingar á að tryggja sjómönnum sínum sambærileg kjör við þau sem tíðkast hjá þeim fiskveiðiþjóðum sem við berum okkur saman við.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra voru á árinu 2008 6.102 sjómenn sem fengu sjómannaafslátt, en sjómannaafslátturinn nam 1.105 millj. kr. vegna ársins 2008. Til samanburðar voru 3.875 aðilar sem greiddu dagpeninga að fjárhæð 8.747 millj. kr. vegna ársins 2008. Af þeim sem greiddu dagpeninga á árinu 2008 voru 138 opinberir aðilar sem greiddu samtals 1.531 millj. kr. Hér er um að ræða fjármuni sem ekki falla undir staðgreiðslu skatta og eru í raun skattfrjálsir. Opinberir starfsmenn njóta samkvæmt þessu mikilla fríðinda umfram aðrar starfsstéttir en að minnsta kosti 18% allra greiddra dagpeninga fara til opinberrar stjórnsýslu.

Það er því sanngjörn krafa að sjómenn njóti áfram þessara kjara sem þeir hafa haft í áratugi, en annað fæli í sér ójafnræði við aðrar starfsstéttir sem geta nýtt sér dagpeningagreiðslur í formi skattafsláttar.“

Frumvarpið í heil má lesa á tengli Alþingis http.://www.althingi.is/altext/140/s/0062.htlm

Deila: