Saltfiskur með rauða svuntu

Deila:

Nú, um hávetur þegar stormurinn skekur húsin og Atlantshafið lemur strendur landsins og heldur smábátunum í landi í verkfalli þeirra stærri, getur verið strembið að fá ferskan fisk. Þá er bara að fá sér góðan saltfisk, draga fyrir gluggana, setja Harry Belafonte á fóninn gæða sér á góðum saltfiski við kertaljós. Þetta finnst okkur gamla settinu að minnsta kosti gott.
Við fundum þessa uppskrift í blaði frá Osta og smjörsölunni þar sem safnað er saman „bestu uppskriftunum“ 1989. Við játum að nafnið réði nokkru um valið, en rétturinn er bæði einfaldur og mjög góður. Uppskriftin er fyrir 3-4.

Innihald:

600 g saltfiskur, útvatnaður og soðinn
1 dós niðursoðnir tómatar.
2-3 pressuð hvítlauksrif
2 saxaðir laukar
basilika
nýmalaður pipar
smjör til steikingar
½ dós sýrður rjómi, 18% eða2 dl rjómi
1 bolli rifinn 26% ostur.

Aðferðin:

Beinhreinsið fiskinn. Steikið laukinn í smjörinu þar til hann verður meyr. Setjið kryddið út í og að lokum tómatana. Látið sósuna malla smástund þar til hún þykknar og bætið þá rjómanum út í.
Setjið saltfiskinn í eldfast mót og hellið sósunni yfir. Jafnið rifna ostinum ofan á.
Bakið við 190°C í um það bil 30 mínútur.
Berið fram með soðnum kartöflum eða hrísgrjónum.

Deila: