Tíðinda að vænta í dag?
Mögulegt er talið að gengið verði frá samningi á milli sjómanna og útgerðarmanna í bítið í dag, rúmum tveimur mánuðum eftir að verkfallið skall á. Fyrir þessu segist Morgunblaðið í dag hafa heimildir.
Fulltrúar sjómanna funduðu með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í sjávarútvegsráðuneytinu á ellefta tímanum í gærkvöldi en fundarmenn vildu ekki gefa neitt upp um efni fundarins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins varð lítill árangur af fundinum og er ástæðan sögð að Þorgerður Katrín hafi verið ósveigjanleg þegar kom að skattaafslætti á fæðispeningum sjómanna. Hún vildi ekki veita viðtal í gærkvöldi.
Að fundinum loknum héldu fulltrúar sjómanna á fund Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, í húsakynnum þeirra í Borgartúni þar sem var fundað fram á nótt. Þegar Morgunblaðið fór í prentun skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi sagðist Jens Garðar Helgason, formaður SFS, vonast til þess að til tíðinda drægi í dag.