Tíðinda að vænta í dag?

Deila:

Mögu­legt er talið að gengið verði frá samn­ingi á milli sjó­manna og út­gerðarmanna í bítið í dag, rúm­um tveim­ur mánuðum eft­ir að verk­fallið skall á. Fyr­ir þessu seg­ist Morg­un­blaðið í dag hafa heim­ild­ir.

Full­trú­ar sjó­manna funduðu með Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, í sjáv­ar­út­vegs­ráðuneyt­inu á ell­efta tím­an­um í gær­kvöldi en fund­ar­menn vildu ekki gefa neitt upp um efni fund­ar­ins. Sam­kvæmt heim­ild­um Morg­un­blaðsins varð lít­ill ár­ang­ur af fund­in­um og er ástæðan sögð að Þor­gerður Katrín hafi verið ósveigj­an­leg þegar kom að skatta­afslætti á fæðis­pen­ing­um sjó­manna. Hún vildi ekki veita viðtal í gær­kvöldi.

Að fund­in­um lokn­um héldu full­trú­ar sjó­manna á fund Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, SFS, í húsa­kynn­um þeirra í Borg­ar­túni þar sem var fundað fram á nótt. Þegar Morg­un­blaðið fór í prent­un skömmu fyr­ir miðnætti í gær­kvöldi sagðist Jens Garðar Helga­son, formaður SFS, von­ast til þess að til tíðinda drægi í dag.

 

Deila: