Nýir markaðir – ný sóknarfæri
FISK Seafood á Sauðárkróki hefur ávallt verið framsækið fyrirtæki og tileinkað sér allt það besta þegar kemur að fiskvinnslu. Fyrirtækið fjárfesti í byltingarkenndri FleXicut skurðarvél frá Marel til þess að nálgast nýja markaði í ferskfiski.
FISK Seafood leggur mikla áherslu á að framleiðsla uppfylli þarfir viðskiptavina með áherslu á nýsköpun í framleiðslu og aukna tæknivæðingu. Hluti af þeim fyrirætlunum er nýja FleXicut kerfið frá Marel sem sett var upp síðla árs 2015 í fiskvinnslu þeirra á Sauðárkróki. FleXicut beitir byltingarkenndri háþróaðri tækni til að skera flök og framleiða úrvals ferskvöru. Frá þessu er sagt á heimasíðu Marel.
Gæði í fyrirrúmi
„Við leggjum okkur fram um að fylgja ströngum gæðaviðmiðum allsstaðar í rekstrinum, hvort sem er við meðhöndlun um borð í skipunum eða í vinnslunni í landi“, segir Jón Örn Stefánsson, verkefnastjóri hjá FISK Seafood. „Þess vegna settum við upp nýja FleXicut kerfið frá Marel sem framleiðir fersk hnakkastykki og bita. Með FleXicut kerfinu bjóðast okkur margfalt fleiri tækifæri til að þróa nýjar afurðir. Einn helsti kosturinn er hvernig flökin eru skorin í bita eftir fyrirfram ákveðnum skurðarmynstrum. Kerfið skilar einsleitri, snyrtilegri vöru í hæsta gæðaflokki.“
Góður söluárangur
Fyrirtækið selur afurðir sínar til Evrópu og Ameríku og hefur þeim verið mjög vel tekið. „Það hefur verið mikil eftirspurn og sala afburðagóð. Við höfum aðeins keyrt bestu ferskvöruna í gegnum FleXicut kerfið og það skilar okkur einstökum gæðum,“ segir Jón Örn. „FleXicut vatnsskurðarvélin hentar okkur einstaklega vel vegna þess hve afköstin eru mikil og hve gæði endanlegrar vöru eru mikil. Það er bæði skoðun starfsmanna og dómur viðskiptavina.“
Hátækni vinnsla
Í nýju vinnslulínunni er FleXicut vélin sem greinir og fjarlægir beingarðinn og hlutar flakið svo niður, síðan sér FleXisort afurðaflokkarinn um að dreifa bitunum á réttan stað og nýr pökkunarflokkari og pökkunarstöð sem tékkvigtar og merkir loka pakkninguna áður en hún fer úr húsi. Tækniframfarirnar sem felast í því að taka í notkun FleXicut kerfið koma skýrt fram hjá FISK Seafood. Það er ekki aðeins að vélin finni beingarðinni og skeri hann úr flakinu, heldur reiknar vélin líka út nákvæmlega hvernig er best að skipta hnakkanum, skera þunnildin eða sporðinn og hluta flakið niður til að uppfylla óskir kaupenda.
Skurður beingarðs er aðeins 5% af flakinu
Það felast mikil verðmæti í að geta hámarkað nýtingu hnakkans um leið og farið er meðalveginn við að fjarlægja beingarðinn þannig að afurðin verði beinlaus. Áhersla FISK Seafood er á gæðin umfram allt annað. „Afskurður beingarðsins er kominn niður í 5% af flakinu sem hentar okkur vel því okkur er mikið í mun að engin bein séu í hnakkastykkinu,“ útskýrir Jón Örn. „Við kjósum að skera beingarðinn heldur þykkari til að koma í veg fyrir að bein finnist í hnakkastykkjunum.“
Varleg meðferð vöru
FleXisort hráefnisflokkarinn er sérstaklega þróaður til að vinna með bita úr FleXicut vélinni. Hugbúnaðargreind FleXicut kerfisins beinir stykkjunum inn á allt að átta mismunandi flæðibrautir. FleXisort beinir hnökkum og bakflökum í nýja pökkunarflokkarann, sem flokkar vöruna með sömu vippu tækni og notuð er í FleXisort.
„Meðferð hráefna er með eindæmum góð í FleXisort, sem er með vippur sem leggja fiskinn mjúklega niður á beltin í stað þess að ýta honum niður. Þessi meðferð er allt önnur en sú sem við höfum séð áður og átt að venjast,“ segir Jón Örn. „Sama á við um nýja pökkunarflokkarann.“
Farið að nýjum reglugerðum
Það er forgangsatriði hjá vinnslum eins og FISK Seafood að fara að reglum um matvælaöryggi. Fyrirséðar eru nýjar reglugerðir fyrir markaðinn í Bandaríkjunum en Jón Örn telur FISK Seafood vel í stakk búið til að uppfylla þær. „Við erum í betri stöðu en margir aðrir. Við höfum mjög góða heildarsýn yfir framleiðsluna þar sem 99% hráefnisins er landað úr okkar eigin togurum og við notum Innova framleiðsluhugbúnað frá Marel til að auðvelda okkur að fylgja framleiðslunni eftir.“
Heildstæður rekjanleiki
Með Innova hugbúnaðinum rekur FISK Seafood allan fisk frá því að hann er veiddur allt þar til hann kemur á disk neytenda. Upplýsingar frá skipinu eru færðar í Innova kerfið þar sem fylgst er með ferli hvers stykkis í gegnum vinnsluna, allt þar til varan er boðin neytendum til kaups í versluninni. „Við vildum fá fullkominn rekjanleika fyrir vörurnar okkar,“ segir Jón Örn. „Ég vil vera viss um að við sjáum allt ferli hráefnisins frá veiðum og þar til afurðin er komin í hendur neytandans. Það er ein af ástæðum þess að við kusum að vinna með Marel.“
Jón Örn lítur svo á að framtíðin sé björt nú þegar nýja kerfið frá Marel er komið í gang á fullt. Staða FISK Seafood á mörkuðum er góð, hágæða vara þeirra selst vel og störf hjá fyrirtækinu verða stöðugt eftirsóttari.