Nýr, sjálfvirkur laxahausari frumsýndur á Salmon ShowHow

Deila:

Marel hefur þróað nýjan laxa hausara sem eykur sjálfvirkni, gæði og nýtingu á laxi til muna. Frumgerðin, MS 2720, var sýnd á Salmon ShowHow í Kaupmannahöfn þann 8. febrúar. Þetta byltingarkennda tæki er á lokastigi vöruþróunar og er nú unnið að síðustu prófunum í samvinnu við laxavinnslur, samkvæmt frétt á heimasíðu Marel.

Hámarks nýting á hverjum fisk

Nýi hausarinn er hannaður til þess að hámarka nýtingu á hverjum laxi. Tækið metur stærð hvers fisks og stillir skurðinn þannig að sem best nýting náist. Vélin býður einnig upp á sjálfvirkan sporðskurð sem þýðir að fiskurinn getur farið beint úr hausaranum inn á flökunarvél.

Nákvæmur skurður

Með hjálp nýjustu servo tækni getur MS 2720 afkastað allt að 20 fiskum (2 til 10 kg hver) á mínútu. Vélin er búinn 6 vönduðum hnífum sem skera úr mismunandi áttum og ná þannig frábærri nýtingu á fiskinum. Svona nákvæmur sporð- og höfuðskurður viðheldur gæðum hráefnisins og stuðlar að því að hægt er að fá betri flök úr hverjum laxi.

Beint í flökunarvél

MS 2720 bætir nýtingu og viðheldur gæðum með mjög nákvæmum skurði og minni meðhöndlun hráefnisins. Vélina er hægt að tengja beint við aðrar Marel vélar eins og MS2730 laxaflökunarvélina. Fiskurinn er fluttur sjálfvirkt frá hausaranum að flökunarvélinni. Þannig minnkar öll meðhöndlun á fisknum og gæði hans halda sér í gegnum ferlið.

Sala hefst síðar á þessu ári

Áætlað er að sala á hausaranum geti hafist í fjórða ársfjórðungi ársins 2017.

Frekari upplýsingar má nálgast með því að senda póst á netfangið: salmondivision@marel.com
 

Deila: