Atkvæðagreiðslan hefur verið kærð
Búið er að kæra framkvæmd atkvæðagreiðslu um kjarasamning milli SFS og samtaka sjómanna í síðasta mánuði til aðildarfélaga sjómanna. Í kærunni segir að talið sé að ekki hafi verið farið að lögum og reglum er varða tíma til atkvæðagreiðslu á kjörstað sem og kynningar á kjarasamningum og auglýsingu um atkvæðagreiðslu hans. Er þess krafist að atkvæðagreiðslan verði dæmd ógild, samkvæmt frétt á visir.is
52,4 prósent þeirra sem greiddu atkvæði samþykktu samninginn, en 46,9 prósent greiddu atkvæði gegn samningnum. Alls voru 2.214 manns á kjörskrá, og var þátttaka tæp 54 prósent.
Heiðveig María Einarsdóttir, sjómaður og viðskiptalögfræðingur, segir í samtali við Vísi að fjöldi umbjóðenda sem standa að baki kærunni séu „nokkrir tugir, hátt í hundrað, og úr flestum aðildarfélögum.“
Ekki lögbundinn tími
„Skemmst er frá því að segja að ekkert aðildarfélaganna uppfyllti skilyrði reglugerðar ASÍ um lágmarkstímaviðmið og voru kynningar ekki birtar með lögbundnum fyrirvara sem mega ekki vera skemmri en 2 sólarhringar og stóð atkvæðagreiðsla aðildarfélaganna ekki í lögbundinn tíma, það er 2 daga og 8 klst hvorn dag,“ segir í kærunni.
Áfram segir að augljóst sé að mikill þrýstingur hafi verið á að fá félagsmenn til að greiða atkvæði og hafi það verið á kostnað þess að færri komust á kjörstað til að greiða atkvæði vegna hins stutta tíma sem gefinn var til atkvæðagreiðslu. „Kemur þetta berlega í ljós í bókum sameiginlegrar kjörstjórnar þar sem skýrt er frá því að 53,7% sjómanna á kjörskrá greiddu atkvæði í kosningunni. Rétt rúmlega helmingur sjómanna, sem höfðu verið í verkfalli í 2 mánuði, skiluðu sér ekki á kjörstað til að greiða atkvæði, og verður það ekki skýrt með öðrum hætti en að of skammur tími var gefinn til þess að félagsmenn gætu kynnt sér samninginn og komið sér á kjörstað til að greiða atkvæði.“
Reglugerð ASÍ
Þá segir að heimfæra verði gildissvið reglugerðar ASÍ á þá framkvæmd sem hér sé kærð „í ljósi þess að engar aðrar reglur eru til um fyrirkomulag atkvæðagreiðslu á kjörstað og er augljóslega ótækt að um fyrirkomuleg atkvæðagreiðslu af þessu tai gildi engar lágmarksreglur sem tryggja rétt félagsmanna aðildarfélaga ASÍ.“
Ennfremur segir að margir félagsmenn hafi gert athugasemdir á kjörstað við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar en þær athugasemdir virðast ekki hafa skilað sér í bókun kjörstjórna, eins og eigi að gera.