Eiríkur Ingi lagði TM

Deila:

Eiríkur Ingi Jóhannsson, eini skipverjinn sem lifði af þegar fiskiskipið Hallgrímur fórst við Noregsstrendur 25. maí 2012, vann í dag dómsmál gegn tryggingarfélagi útgerðar skipsins. Þrír skipsfélagar Eiríks létust og um fjórar klukkustundir liðu áður en þyrluáhöfn norsku strandgæslunnar kom auga á Eirík þar sem hann hélt sér á floti, illa haldinn, í sjónum.

Eiríkur Ingi og Tryggingamiðstöðin, tryggingafélag útgerðarinnar, deildu um tekjuviðmið þegar kom að útreikningi þeirra bóta sem Eiríkur skyldi fá fyrir tjón sitt. Eiríkur var með skipstjórnarréttindi og þegar slysið varð átti hann lítið eftir af námi til að afla sér fullra vélstjórnarréttinda. Hann taldi að bæturnar ættu að taka mið af tekjumöguleikum sem fælust í þeim réttindum. Tryggingafélagið vildi miða bætur hans við laun fyrstu mánuðina eftir að Eiríkur lauk skipstjórnarnámi. Munurinn á þessu tvennu var tæpar þrettán milljónir króna. Því varð úr að tryggingafélagið greiddi Eiríki 30 milljónir en hann fór fram á 43 milljónir.

Eiríkur Ingi fær bætur vegna atvinnutjóns og þjáninga í eitt ár eftir slysið, vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku. Varanlegi miskinn var metinn 25 stig og varanlega örorkan 35 prósent. Tryggingamiðstöðin greiddi Eiríki Inga bætur í október 2014, miðað við sitt mat, en lögmaður hans tók við greiðslunni með fyrirvara um árslaunaviðmið og hugsanlegt mat um rétt hans til meiri bóta. Hæstiréttur staðfesti í dag rétt Eiríks Inga til bóta upp á 43 milljónir króna.

Hefur áhrif á starfsval og starfsgetu

Dómkvaddir matsmenn báru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að Eiríkur Ingi hefði verið duglegur og ósérhlífinn til vinnu og að gera yrði ráð fyrir að atvinnuþátttaka hans hefði verið óskert það sem eftir væri starfsævinnar hefði hann ekki lent í sjóslysinu. Þeir töldu líklegt að sjóslysið hefði töluverð áhrif á starfsval Eiríks Inga í framtíðinni. Matsmennirnir sögðu að í ljósi þess hve alvarlegt slysið hefði verið þá væri ekki hægt að ætlast til að hann færi aftur á sjó. Hann yrði því í verr launuðum starfi í landi en á sjó.

Matsmenn bentu á áhrif áfallastreituröskunar og tiltóku að geta Eiríks til að vinna yfirvinnu væri nokkuð skert vegna afleiðinga slyssins.

 

Deila: