Samgöngumálastjóri ESB sigldi með Óðni
Violeta Bulc, samgöngumálastjóri Evrópusambandsins, var stödd hér á landi í tilefni af heimsþingi samtakanna Women Political Leaders sem fram fór í Reykjavík í nýliðinni viku. Bulc notaði tækifærið meðan hún var hérlendis til að skoða skipasmíðastöðina Rafnar í Kópavogi en fyrirtækið er þátttakandi í Horizon 2020-áætlun ESB um styrki á sviði rannsókna og nýsköpunar. Frá þessu er greint á heimasíðu Gæslunnar.
Í heimsókninni kynnti Bulc sér kosti ÖK-skipsskrokksins, sem nefndur er eftir Össuri Kristinssyni, stofnanda Rafnars, en bátar með þessu lagi þykja einstaklega liprir á sjó og velta lítið sem ekkert.
Aðgerðabáturinn Óðinn, sem Landhelgisgæslan fékk afhentan sumarið 2015 , er af gerðinni Leiftur 1100 og er smíðaður af Rafnari. Hann hefur á þessum tveimur árum sannað gildi sitt við löggæslu, eftirlit og önnur störf. Því var vel við hæfi að Bulc færi í stutta siglingu með Óðni til að kynnast bátum Rafnars af eigin raun. Af myndunum að dæma er ekki annað að sjá en að samgöngumálastjórinn hafi skemmt sér hið besta í siglingunni.