Rækjubrestur við Norður-Noreg

Deila:

Rækjuveiðar fyrir Norður-Noregi hafa gengið einstaklega illa og er samdrátturinn 50 til 75% miðað við síðasta vetur. Margir útgerðarmenn telja að að verði þetta ástand viðvarandi neyðist þeir til að hætta útgerð, selja bátana og snúa sér að einhverju öðru. Þetta er reyndar ekki sér norskt vandamál, því svipaða sögu er að segja af veiðum við norðausturströnd Kanada og sömuleiðis hér við land.

Norska ríkisútvarpið, NRK,  kannaði þessa stöðu og ræddi við útgerðarmanninn Lynne Prudence Sjåvik, sem sagði að ástandið versnaði ár frá ári. Hann segist hafa verið á rækjuveiðum frá árinu 1990, en veiðin hafi aldrei verið jafnslæm og í ár. Það sé hreinlega hvergi rækju að fá. Þeir hafi verið með fimm rækjubáta í útgerð á sínum tíma, en nú sé hann aðeins einn að. Margi hafi gefist upp og snúið sér að þorskveiðum í staðinn.

Ástandið er orðið svo slæmt að sögn NRK, að minnsta kosti ein rækjuverksmiðja hefur hætt störfum og sagt upp starfsfólki sínu. Á þessu ári var rækjuafli á dag hjá mörgum bátum aðeins um 50 kíló, sem dugir hvergi fyrir útgerðarkostnaði.
Þessi aflaþurrð nær norður eftir Noregi allt til Tromsö og Finnmerkur.

 

Deila: