Góður afli Akureyjar

Deila:

Ísfisktogaranum Akurey AK kom til hafnar á Sauðárkróki síðdegis í gær með um 170 tonna afla eftir um fjóra sólarhringa á veiðum en látið var úr höfn í Reykjavík sl. föstudag.

,,Við höfum verið að þorskveiðum fyrir norðan land seinni partinn í sumar og aflabrögðin hafa verið góð,“ segir Magnús Kristjánsson sem er skipstjóri í veiðiferðinni. Magnús segir að þorskurinn hafi greinilega leitað lengra norður en vant er í ætisleit og nú sé t.a.m. engan þorsk að hafa á þekktri veiðislóð á Vestfjarðamiðum, s.s. á Halanum og í kantinum þar suðvestur af. Skip sem nú eru á Vestfjarðamiðum séu þar að eltast við ufsa.

,,Hér úti fyrir Norðurlandi höfum við fengið góðan þorskafla og í þessari veiðiferð fórum við lengst austur á Sléttugrunn. Við höfum orðið varir við töluvert æti s.s. makríl, síld og rækju. Loðna hefur ekki sést. Auk þorsksins er hér einnig dálítið af ufsa en karfann verðum við að veiða vestan og suðvestan við landið,“ segir Magnús Kristjánsson í samtali á heimasíðu HB Granda.

 

 

Deila: