1.300 tonna grásleppukvóti við Grænland
Sjávarútvegsráðuneyti Grænlands hefur gefið út grásleppukvóta við Vestur-Grænland. Verður hann 1.300 tonn og skiptist milli sjö veiðisvæða. Hámark veiðidaga á hverju svæði er 44 dagar eða þar til hámarki er náð. Hér við land er miðað við að aflinn fari ekki yfir 6.355 tonn.
Leyfilegur afli eftir veiðisvæðum er frá 77 tonnum upp í 405 þar sem hann er mestur. Staðbundnum vinnslustöðvum er skylt að tilkynna um upphaf veiða og verður heimildum þá skipt milli bæja.