Tímamót í útgerðarsögunni

Deila:

IMG_6648 (2)„Smíði Engeyjar markar að mínu mati tímamót í útgerðarsögu landsmanna. Í dag eru gerðir út 16 ísfisktogarar – eftir því sem ég tel – af hefðbundinni stærð eða um 50 m og lengri. Þeir eru allir smíðaðir á síðustu öld, sá yngsti þeirra eða nýjasti er smíðaður 1989 en helmingur þeirra er smíðaður á árunum 1972-1978. Það hlaut því að koma að endurnýjun á þessum undirstöðuatvinnutækjum okkar Íslendinga.“

Svo sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, við sérstaka móttökuathöfn hins nýja togara félagsins Engeyjar á föstudag. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ráðherra sjávarútvegsmála gaf skipinu formlega nafnið Engey, Bjarni Benediktsson flutti ávarp og sömuleiðis Björn Blöndal formaður borgarráðs Reykjavíkur. Séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur blessaði skipið og Karlakór Reykjavíkur tók lagið.

Hefur fiskað fyrir 40 milljarða

Ásbjörn sem Engey leysir af hólmi var smíðaður árið 1978 og vantar því eitt ár í fertugt. Ásbjörn hefur reynst afburðar vel og þrátt fyrir að vera með þeim minnstu í þessum hóp togara hefur hann iðulega verið meðal þeirra aflahæstu og reyndar ósjaldan eða 13 sinnum aflahæsti ísfisktogari landsmanna, síðast árið 2014. Ásbjörn hefur landað um 227 þúsund tonnum í 1.542 löndunum, aflaverðmætið gæti verið um 40 milljarðar króna að núvirði. Já, geri aðrir betur!

„Forsendan er flott áhöfn sem fiskar vel og kann til verka. Fyrstu tveir túrarnir í kjölfar nýafstaðins verkfalls tóku t.d. um 50 klst. hvor frá höfn í höfn og aflinn fullfermi eða 120 tonn af blönduðum afla í hvorri veiðiferð. Slíkur afli hefur reyndar ekki talist til sérstakra tíðinda þegar Ásbjörn hefur verið annars vegar. Það er í raun með ólíkindum hversu mikinn afla áhöfnin hefur ráðið við að koma um borð í Ásbjörn því vinnuaðstaða er vægast sagt bágborin miðað kröfur okkar í dag.

Til að standa vörð um minningu Ásbjarnar og þar með sögu fyrri kynslóðar skuttogara höfum við látið gera heimildarmynd um Ásbjörn. Það var reyndar Björgvin Helgi Pálsson kvikmyndatökumaður sem sáði hugmyndinni hjá okkur og fengum við hann til verksins. Við stefnum að því að gefa almenningi kost á að sjá myndina um Sjómannadagshelgina,“ sagði Vilhjálmur og fjallaði síðan að um Engey.

Byltingarkenndar nýjungar

„Það er með mikilli ánægju og eftirvæntingu sem við tökum í notkun nýtt skip með byltingarkenndum nýjungum og mikilli fyrirmyndar aðstöðu fyrir áhöfn. Friðleifur Einarsson skipstjóri og áhöfn hans, sem fer með honum frá Ásbirni yfir á Engey, eiga það svo sannarlega skilið. Frágangi og gangsetningu búnaðar um borð í Engey er ekki að fullu lokið og mun Ásbjörn því væntanlega standa vaktina út apríl en þá reiknum við með að Engey verði klár í slaginn.

Ég vil þakka eftirlitsmönnum okkar með smíðinni þeirra störf, en þeir sem þar stóðu vaktina voru Páll Kristinsson og Þórarinn Sigurbjörnsson sem nánast hefur verið búsettur í Tyrklandi í þrjú og hálft ár. Magnús Sigurðsson, yfirvélstjóri á Engey, hefur heldur ekki látið kyrrt liggja og er búinn að vera sofinn og vakinn yfir smíðinni frá því í haust.

Ég vil einnig þakka Alfreð Tulinius hönnuði skipsins fyrir alla þá alúð sem hann hefur lagt í skipið og við eigum eftir að njóta góðs af. Þá þakka ég Volkan Urun framkvæmdastjóra skipasmíðastöðvarinnar Celiktrans fyrir einstaka þolinmæði og þrautseigju við að eltast við kenjar okkar. Volkan er hér með okkur í dag. Þá er að lokum ljóst að bæði Guðmundur Hafsteinsson, skipaeftirlitsmaður okkar og Ingólfur Árnason og hans menn hjá Skaganum 3X hafa lagt allan sinn metnað í að útbúa vinnslubúnað og ekki síst karaflutningskerfi eins og best verður á kosið. Þar er um algera nýjung að ræða og leggjum við mikið undir að hún takist sem best.

Þrír ísfisktogarar væntanlegir í ár

Ég er sjálfur stoltur, hrærður og sérlega þakklátur fyrir þau forréttindi að fá að taka þátt í þessu verkefni sem er í mínum huga sannkallað ævintýri. Fyrst fengum við 2 ný uppsjávarveiðiskip sem reynst hafa afbragðsvel, Venus og Víking árið 2015 og síðan eru 3 nýir ísfisktogarar væntanlegir í ár. Akurey er væntanleg í júní og Viðey í desember.

Við höfum haldið nafnasamkeppnir við ýmis tækifæri hjá HB Granda. Það var hins vegar engin þörf á því þegar kom að nýjum ísfisktogurum. Engey er glæsilegt nafn á skipi og því hefur fylgt mikil farsæld. Það var aldrei uppi neinn vafi eða bakþankar um að fyrsta togarinn ætti að bera það nafn.

Þar var líka alveg augljóst að leitað yrði Bjarna Benediktssonar til flytja ávarp. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók erindi okkar vel og vinsamlega og mun nú flytja ávarp,“ sagði Vilhjálmur.

Séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur, afhenti Friðleifi Einarssyni, skipstjóra á Engey, biblíuna um leið og hann blessaði skipið. Ljósmyndir: Hjörtur Gíslason

Séra Hjálmar Jónsson, dómkirkjuprestur, afhenti Friðleifi Einarssyni, skipstjóra á Engey, biblíuna um leið og hann blessaði skipið.
Ljósmyndir: Hjörtur Gíslason

 

 

 

 

Deila: