Börkur með mest af kolmunna

Deila:

Austfirsku skipin Beitir NK, Börkur NK og Jón Kjartansson SU, fengu mesta úthlutun íslenskra skipa í kolmunna fyrir vertíðina, sem nú er hafin. Beitir fékk 18.517 tonn, Börkur 17.309 tonn og Jón Kjartansson 15.582 tonn. Eftir breytingar vegna tilfærslu milli ára og á milli skipa er er Beitir nú með  með mestar heimildir, 15.755 tonn.

Næsta skip er Börkur með 14.742 tonn. Hoffell SU er með 14.326 tonna heimildir eftir flutning af Ljósafelli í sömu útgerð. Þá koma HB Granda skipin Víkingur AK með 14.123 tonn og Venus NS með 13.401.

Veiðarnar hófust strax að lokinni loðnuvertíð í síðasta mánuði og var fyrst sótt suður undir Rockall. Eftir það varð hlé á veiðunum þar til kolmunninn gekk inn í lögsögu Færeyja. Veiðarnar hafa enn sem komið er ekki skilað miklu, aðeins 10.217 tonnum, en leyfilegur heildarafli er 134.799 tonn. Þá hafa verið dregin frá fyrstu úthlutun 15.201 tonn vegna þess að í fyrra tóku skipin það magn fyrirfram af þessa ár kvóta.

Níu skip hafa landað afla það sem af er samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu. Börkur er með mestan afla, 1.793 tonn, Vilhelm Þorsteinsson með 1.725, Aðalsteinn Jónsson II SU 211 er með 1.683 tonn, Beitir með 1.294, Bjarni Ólafsson með 1.271 og Aðalsteinn Jónsson SU 11. Margrét EA er með 752 tonn, Jón Kjartansson SU 463 og Venus með 162 tonn.

Deila: