Skaginn 3X selur búnað um borð í Drangey

Deila:

Í gær var undirritaður á sjávarútvegssýningunni í Brussel samningur milli Skaginn 3X og Fisk Seafood á Sauðárkróki um kaup þess síðarnefna á vinnslu- og lestarbúnaði fyrir nýsmíði fyrirtækisins Drangey SK2 sem sjósett var í Tyrklandi í síðustu viku. Skipið er væntanlegt til landsins síðla sumars.

Vinnslubúnaðurinn byggir á Sub-chilling tækni þeirri er Skaginn 3X hefur þróað undanfarin misseri m.a. í samstarfi við Fisk Seafood en fyrsti búnaðurinn af þeim toga var settur um borð í Málmey SK1 fyrir rúmum tveimur árum síðan. Frá þeim tíma hefur afli Málmeyjar verið rúm 17.000 tonn. Sub-chilling tæknin gerir m.a. notkun íss við geymslu fersks fisks óþarfa með tilheyrandi lækkun kostnaðar við veiðar og vinnslu.

Þá verður einnig sett um borð í Drangey sjálfvirkt lestarkerfi af svipuðum toga og nú hefur verið komið fyrir um borð í Engey RE91 og leysir af hólmi erfið og um margt hættuleg störf sjómanna. Saman tryggja kerfin samfellu í meðhöndlun afla um borð, aukin afköst við veiðar og gefa auk þess möguleika á rekjanleika afla frá veiðum til neyslu.

Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri Fisk Seafood, segir búnað þann, sem þróaður var í samstarfi fyrirtækjanna og settur var um borð í Málmey, hafa reynst mjög vel. ,,Væntingar um aukin gæði afla með þessari nýju aðferð hafa staðist og því voru kaupin á búnaði fyrir Drangey rökrétt framhald,” segir hann.

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skaginn 3X, segir samninginn við Fisk Seafood afar ánægjulegan í ljósi þess að um aðra sölu slíks búnaðar sé að ræða milli fyrirtækjanna. „Betri viðurkenningu geta framleiðendur ekki fengið en ánægðan viðskiptavin sem kemur aftur. Þróunarsamstarf fyrirtækjanna hefur skilað miklum árangri og þessi samningur staðfestir það,” segir hann.
Á myndinni er samningnum fagnað í Brussel. Frá vinstri eru Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri, Erla Jónsdóttir fjármálastjóri, Laufey Skúladóttir, markaðs- og sölustjóri, Gylfi Guðjónsson útgerðarstjóri og Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skaginn 3X.

 

 

Deila: