Atvinnuauglýsing afturkölluð
Nýverið auglýsti Fiskistofa eftir konum í störf veiðieftirlitsmanna. Ástæða þess að sú leið var farin er að verulega hallar á fjölda kvenna við veiðieftirlitsstörf hjá stofnuninni og var því ákveðið að reyna að ná sérstaklega til kvenna með þessum hætti.
Áður en störfin voru auglýst fékk Fiskistofa ráðgjöf frá Jafnréttisstofu sem mat það svo að heimilt væri, með vísan til 3. mgr. 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, að auglýsa eftir öðru kyninu ef tilgangurinn er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar, eins og á við í þessu tilfelli. Nú hefur komið í ljós að Fjármálaráðuneytið er ekki sammála túlkun Jafnréttisstofu á ofangreindu ákvæði jafnréttislaga. Jafnréttisstofa hyggst leggja málið fyrir úrskurðarnefnd jafnréttismála til að fá skorið úr ágreiningsefninu.
Fiskistofa leggur áherslu á fagleg og vönduð vinnubrögð í samræmi við lög og reglur. Í ljósi þessa ágreinings um túlkun viðkomandi lagaheimildar hefur Fiskistofa ákveðið að afturkalla atvinnuauglýsinguna og taka málið til endurskoðunar.