Grásleppuvertíðin veldur vonbrigðum á Drangsnesi

Deila:

„Grásleppuvertíðin hefur verið slök hér hjá okkur og stefnir í að veiðin verði þriðjungur af því sem var í fyrra. Það kemur illa við alla hér á staðnum því grásleppuvertíðin skiptir miklu máli fyrir okkar starfsemi og útgerð hér á Drangsnesi,“ segir Óskar Torfason, framkvæmdastjóri Fiskvinnslunnar Drangs ehf. á Drangsnesi. Fyrirtækið var stofnað árið 2000 af heimamönnum og er með einn bát í útgerð, auk þess að vinna bæði bolfisk af bátum á staðnum og skel sem ræktuð er í Steingrímsfirði. Átján starfsmenn eru hjá Drangi og segir Óskar að á meðan á grásleppuvertíðinni stendur sé vinnslu á bolfiski vikið til hliðar og öll áhersla lögð á vinnslu grásleppu.

Veðurguðirnir ekki hliðhollir grásleppusjómönnum

„Veðrið hefur verið mjög andsnúið grásleppusjómönnunum hjá okkur í vor og sjaldan komið nokkrir dagar í röð sem þeir hafa getað verið með netin í friði á  hefðbundnu veiðisvæðunum. Þrátt fyrir fleiri leyfða veiðidaga en í fyrra þá er alveg ljóst að við verðum með miklu lakari vertíð en þá,“ segir Óskar. Flestir bátar á Drangsnesi hófu grásleppuveiðar þegar leyft var, þ.e. 20. mars síðastliðinn.

„Margir bátanna hjá okkur hafa verið með nokkuð stöðuga veiði síðustu ár, skilað um 100 tunnum af hrognum hver. Sumir þeirra verða með 30-40 tunnur í ár þrátt fyrir fleiri daga. Á Drangsnesi landa 14 bátar á grásleppu, auk þess sem við fáum grásleppu til vinnslu frá fjórum bátum annars staðar. Sumar útgerðirnar eru með tvo báta og geta þá byrjað að róa á seinna tímabilinu núna í byrjun máí en reynslan er sú að oft er erfitt að eiga við grásleppuna þegar lengra kemur fram á vorið. Þá er hún á grynnra vatni og þá getur komið mikill þari í netin ef veður er ekki sæmilegt en vonandi gengur vel hjá þeim sem eiga eftir sína daga núna í maí,“ segir Óskar.

Stefnir í 500 tunnur í ár

Hjá Drangi ehf. var unnið úr um 600 tonnum af grásleppu á vertíðinni í fyrra en hún stóð til 20. maí. „Við söltuðum í 1.350 tunnur af hrognum í fyrra en þetta gætu orðið um 500 tonnum í ár. Þetta er slæmt fyrir alla – minni vinna í vinnslunni hjá okkur og mun minna út úr þessu að hafa fyrir bátatútgerðirnar. Síðustu ár hefur verið mikil vinna í grásleppunni hér í húsinu en núna er þetta ekki líkt því eins samfelld vinna,“ segir Óskar.

Gengisþróun hefur áhrif á sölu grásleppuafurðanna, líkt og annarra útfluttra sjávafurða en sem fyrr segir Óskar ekki að fullu ljóst hverju þær skili. „Þessi grásleppuafurðasala er svolítið sérstök, menn halda gjarnan að sér höndum og sjá í hvað stefnir í framleiðslu á vertíðinni en ég á ekki von á öðru en að það verði auðvelt að selja hrognin. Frystir grásleppubúkar fara sem fyrr á markað í Kína en heildarmyndin af þessu verður skýrari þegar kemur fram lengra fram í maímánuð. Verðið fyrir búkana í Kína hefur heldur verið að síga niður frá því sala hófst þangað fyrir nokkrum árum og því ekki þróast eins og menn vonuðust eftir.“

 

Fersk grásleppuhrogn sækja á

Stærstur hluti grásleppuhrognanna er saltaður hjá Drangi ehf. en Óskar segir fyrirtækið einnig vera að reyna fyrir sér með pökkun og útflutningi á ferskum, kældum grásleppuhrognum. Bæði fersku og söltuðu hrognin eru seld til Svíþjóðar og Danmerkur.

„Mér sýnist vera talsverð aukning í fersku hrognunum og möguleikar til enn frekari vaxtar í þeirri vinnslu. Þetta er tímafrekari vinnsla en söltunin því ná þarf hrognasekkjunum heilum en hrognunum er síðan pakkað í frauðplastkassa fyrir flug, með svipuðum hætti og ferskur fiskur er fluttur erlendis. Skilaverðið fyrir fersku hrognin er betra en í þeim söltuðu en á móti kemur að þetta er tímafrekt og hentar ekki alltaf fyrir vinnslurnar.“

Með allar klær úti eftir verkefnum

Hjá Drangi er vinnsla einn dag í viku á skel úr Steingrímsfirði en þær afurðir fara til innlendra verslana og veitingahúsa.

Bláskelin er sekkjuð í netpoka og kæld. Varan fer síðan til veitingahúsa og verslana en öll skelframleiðsla Drangs fer á innanlandsmarkað.

Bláskelin er sekkjuð í netpoka og kæld. Varan fer síðan til veitingahúsa og verslana en öll skelframleiðsla Drangs fer á innanlandsmarkað.

„Við höfum bæði fryst skel og í vaxandi mæli pakkað henni ferskri fyrir viðskiptavini. Síðan erum við einnig að vinna makríl af smábátunum meðan á þeirri vertíð stendur síðsumars en að öðru leyti erum við í botnfiskvinnslu, hefðbundinni flökun og frystingu. Við reynum þannig að vera með allar klær úti til að halda uppi fullri vinnu og gengur ágætlega. En það má aldrei slaka á. Skelin er mjög góður stuðningur fyrir okkur en grásleppuvertíðin skiptir umtalsverðu máli. Það er því slæmt fyrir staðinn og fyrirtækið þegar vertíðin bregst eins og núna. Lítil vinnsla eins og þessi á ekki mikla möguleika í samkeppni við þær stóru í framleiðslu á bolfiskafurðum og þess vegna höfum við farið þá leið að framleiða með gamla laginu, frysta flök og framleiða léttsaltaða bita. Bitana framleiðum við í 10 kílóa pakkningar og hefur færst í vöxt að einstaklingar kaupi þessa vöru beint frá okkur. Okkur hefur því tekist að efla markað fyrir okkar bolfiskafurðir innanlands. Það er mikilvægt við þær aðstæður sem hafa verið í gengisþróun krónunnar að vera með fæturna líka í innanlandsmarkaðnum og smásölunni, ekki bara í útflutningi,“ segir Óskar.
Viðtalið birtist fyrst í Ægi nú í maí.

 

 

 

Deila: