Besti túrinn eftir hrygningarstopp

Deila:

„Þetta er besti róðurinn eftir hrygningarstoppið, um sjö tonn. Fyrstu dagana eftir stopp var þetta frekar rólegt en nú er þetta allt að koma. Þetta var annars betra fyrir hrygningarstoppið. Þó okkur finnist það kannski ekki mikið í dag, telst þetta sennilega vera rótfiskirí á línu miðað við sögulegt samhengi. Mikið svona um og yfir 200 kíló á bala, sé sú viðmiðun notuð. Áður en lokað var vorum við mikið að landa svona 7 tonnum, en eftir opnun hefur þetta verið 4 til 5 tonn þar til nú. En nú er þetta að byrja, við erum með rúm sjö tonn.“

20170426_161636

Þetta segir Magnús Guðjónsson, skipstjóri á Indriða Kristins BA. Hann er með bátinn á móti Indriða bróður sínum, föst áhöfn er sex manns en fjórir um borð hverju sinni. Rætt var við Magnús í nýjasta tölublaði Ægis.

Það er Þórsberg á Tálknafirði sem gerir bátinn út. Þórsberg var á sínum tíma stofnað af afa Magnúsar, Magnúsi Guðmundssyni. Indriði Kristins er 22 tonna smábátar smíðaður í Trefjum og afhentur í desember 2015. Og hafa bræðurnir verið að róa á honum síðan þá. Þórsberg gerði áður út 350 tonna bát, Kóp, og var með fiskvinnslu og stjórnaði Guðjón, faðir Magnúsar þá fyrirtækinu. Kópur var smíðaður 1968 og hét upphaflega Táknfirðingur og var fyrst í eigu Hraðfrystihúss Tálknafjarðar. Hann var síðan seldur um 1980 og fór frá Tálknafirði, en Þórsnes keypti hann 1982 og hét hann þá Kópur. Magnús var skipstjóri þar í 10 ár áður en hann var seldur.  „Kópur var seldur með kvóta til Hóps í Grindavík og þeir sem keyptu voru fyrst og fremst að hugsa um kvótann. Báturinn hefur engu að síður fengið upplyftingu og er að fara til Noregs, þar sem hann var smíðaður upphaflega. Maður hefði haldið að hans tími væri búinn en svo var ekki.

Með góðan kvóta

Við fengum borgað fyrir gamla bátinn og kvótann að mestu leyti með heimildum í krókaaflamarkskerfinu og við erum nú með meiri kvóta á þessum bát en var á gamla bátnum því heimildir í litla kerfinu er ódýrari en í því stóra. Við áttum líka eitthvað á gamla Indriða Kristins. Maður er búinn að upplifa það að vera á bát með litlum kvóta og nú erum við hinum megin á bitanum, að hafa úr nógum heimildum að spila. Það er allt annað og betra þó það sé meira puð að vera á þessum smærri bátum. Við löndum öllu óslægðu og kvótinn svarar til um 1.500 tonna af óslægðu,“ segir Magnús.

Þeir landa öllu á markað og hafa ekki verið í neinum beinum viðskiptum síðan þeir byrjuðu með þennan bát.

Þeir bræður réru frá Neskaupstað frá því í ágúst og fram eftir hausti og líkaði vel þar. „Við fengum góða þjónustu þar og vorum ánægðir með lífið og tilveruna. Við fiskuðum mjög vel og gekk allt í haginn. Verðin voru þokkaleg en þó slakari en verið hafði enda krónan alltof sterk. Síðan fórum við til Tálkafjarðar í desember og mokfiskuðum þar. Staðreyndin er sú að við erum með það mikinn kvóta, að ef við ætlum að ná honum verðum við að vera þar sem er einhver fiskur. Það er ekkert hægt að hanga í einhverju nöturlegheitum. Við vorum fyrir vestan fram til 10. mars. Þá var loðnan komin í Breiðafjörðinn og ekkert að hafa nema steinbít. Við erum með einhvern smávegfis steinbítskvóta en bara til að taka með þorskinum. Við höfum engan áhuga á að liggja í steinbít. Það er svo lágt verðið á honum.“

Þeir eru því með bátinn í Grindavík núna en þar búa báðir bræðurnir og eru giftir systrum, dætrum Hjálmars heitins Haraldssonar, sem var með Oddgeir í áratugi.

Bara hálftíma stím

Indriði Kristins er með beitningarvél með 17.000 króka. Magnús segir að sé stímið 3 til 4 tímar fari alveg sólarhringurinn í að leggja og draga eins það hafi verið fyrir vestan Svo þurfi menn aðeins að leggja sig og það sé gert eftir að línan er komin í sjóinn og er farin að vinna. Við erum svona tvo tíma að leggja og sjö tíma að draga og 2 tíma að landa og með löngu stími rétt hrekkur sólarhringurinn í þetta. En hér frá Grindavík er bara hálftími í stím og það er mun þægilegra,“ segir Magnús Guðjónsson.

Deila: