Góð aflabrögð í kolmunna

Deila:

Á fjórum fyrstu mánuðum ársins hafa íslensk skip veitt 77.080 tonn af kolmunna.  Aflinn á sama tíma í fyrra var nokkuð meiri eða 103.533 tonn. Mestur afli á þessari vertíð er fenginn að venju í lögsögu Færeyja eða 61.156 tonn og í íslenskri lögsögu 8.981 tonn. Aflahæsta skipið í kolmunna á fyrstu fjórum mánuðum ársins er Börkur  NK-122 með 10.766 tonn. Næst kemur Beitir NK-123 með 9.681 tonn.

Þetta kemur fram í yfirliti Fiskistofu yfir afla fyrstu fjóra mánuði ársins í  norsk-íslenskri síld, makríl, úthafskarfa á Reykjaneshrygg og kolmunna.

Makríll sem meðafli á kolmunnaveiðum

Fjölmörg skip sem hafa verið á kolmunnaveiðunum nú í vor hafa fengið talsvert magn af makríl í  veiðarfærin.  Meðal annars landaði Beitir NK-123 alls 85 tonnum af makríl þann 27. apríl sl.  en  í þessari veiðiferð landaði Beitir rúmlega 2,9 þúsund tonnum af kolmunna.   Makrílafli íslenskra skipa var í aprílmánuði tæp 518 tonn.

 

Deila: