Eskja selur Aðalstein til Grænlands

Deila:

Eskja á Eskifirði hefur selt frystiskipið Aðalstein Jónsson II SU til grænlenska útgerðarfyrirtækisins Arctic Prime Fisheries. Reiknað er með að uppsjávarskipið Qavak GR 21 gangi upp í kaupin, en skipið er nú í slipp í Reykjavík. Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í dag.

Í vetur tók Eskja í notkun nýtt og fullkomið frystihús á Eskifirði til vinnslu á uppsjávartegundum. Samhliða var ákveðið að gera breytingar á skipastóli félagsins og stórt uppsjávarskip, Libas, var keypt frá Noregi og fékk það nafnið Aðalsteinn Jónsson. Libas var smíðað 2004, er um 94 að lengd og nærri 18 metra breitt. Það getur borið um 2.400 lestir og um borð er fullkominn kælibúnaður.

Nú hefur frystiskip Eskju, sem bar orðið nafnið Aðalsteinn Jónsson II, verið selt. Það var smíðað í Noregi og Rúmeníu 2001 og keypt hingað frá Noregi 2006. Eskja gerir einnig út Jón Kjartansson SU, sem áður bar nöfnin Hólmaborg og Eldborg. Það var smíðað í Svíþjóð 1978, en lengt 1996.

Makríll, síld og loðna

Qavak hefur haft leyfi til veiða á makríl og síld í grænlenskri lögsögu og einnig á loðnu samkvæmt samningum Grænlendinga og Íslendinga um veiðar úr stofninum. Skipið er var smíðað 1999, er 68 metrar að lengd, 12,6 metrar að breidd og ber um 1.800 tonn. Útgerðarfyrirtækið Brim hf. er hluthafi í grænlenska fyrirtækinu,. sem gerir út fjögur skip. Auk Qavak eru það frystiskipið Ilivileq, áður Skálaberg, og tveir línubátar.

Deila: