Bláa lífhagkerfið leikur lykilhlutverk

Deila:

World Seafood Congress ráðstefnan fór fram í Hörpu nú í vikunni og á ráðherrafundi um bláa lífhagkerfið ræddi Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra mikilvægi ábyrgrar og sjálfbærrar nýtingar hafsins. Í inngangserindi ráðherrafundarins, sem fjallaði um hvernig vinna megi að framgangi bláa hagkerfisins og nýta á bestan hátt möguleika hafsins, sagði utanríkisráðherra að hnattrænum áskorunum í loftslagsmálum og þjóðfélagsgerð víða um heim fylgdi sífellt aukin ógn fyrir lífríki sjávar og skortur á matvælum.

„Það er á okkar ábyrgð að nýta auðlindir sjávar með sjálfbærum hætti og gera okkar ítrasta til að nýta öll verðmæti. Við ættum að setja markið á 100% nýtingu og 0% úrgang,“ sagði Guðlaugur Þór í erindinu.

Í ræðu sinni ræddi utanríkisráðherra sjávarútvegsstefnu Íslands, árangur hennar og þær aðferðir sem Íslendingar hefðu þróað við nýtingu sjávarfangs. „Á undanförnum árum höfum við í æ ríkari mæli verið að kanna leiðir til að nýta prótein og lífefni úr sjávarafurðum sem fyrir stuttu síðan var álitinn úrgangur,“ sagði ráðherrann. „Hægt og bítandi erum við að skilja betur að það eru fjölmörg tækifæri og möguleikar, sérstaklega hjá strandríkjum,“ sagði Guðlaugur Þór og vísaði til fjölmargra uppgötvana á sviði vísinda og tækni sem hafi gert það kleift að ör uppbygging ætti sér stað í þessu geira. „Bláa lífhagkerfið mun leika lykilhlutverk við að ná heimsmarkmiðum SÞ og mun það ekki aðeins efla hagvöxt heldur einnig efla getu ríkja til að verja sig gagnvart ytri ógnum með því að vernda hafið.“

Meginumræðuefni ráðherrafundarins um bláa lífhagkerfið tengist Heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna nr. 14, sem fjallar verndun og nýtingu hafsins á sjálfbæran hátt. Á ráðherrafundi World Seafood Congress tóku þátt háttsettar sendinefndir frá Bangladess, Grænhöfðaeyjum, Costa Rica, Nígeríu, Malasíu, Kanada, Nova Scotia, Nýfundnalandi og Labrador, Prince Edward-eyju í Kanada, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), Alþjóðabankanum, Norrænu ráðherranefndinni, Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Iðnþróunarstofnun SÞ (UNIDO).

Þá ávarpaði utanríkisráðherra hliðarviðburð WSC „Nýtt tækifæri fyrir höfin“ en það voru utanríkisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisið, Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) og Matís sem stóðu fyrir viðburðinum. Meginumræðuefni fundarins var heimsmarkmið SÞ nr. 14, sem fjallar um hafið: „Vernda og nýta hafið og auðlindir þess á sjálfbæran hátt í því skyni að stuðla að sjálfbærri þróun“.

 

Deila: