Skipverja á Ross Cleveland minnst

Deila:

Áhöfn varðskipsins Tý hafði í nógu að snúast í síðasta túr sínum en skipið kom til hafnar í Reykjavík í síðastliðinni viku. Auk hefðbundinna eftirlits- og löggæslustarfa tóku skipverjar þátt í ýmis konar æfingum, meðal annars með danska eftirlitskipinu Ejnar Mikkelsen. Það heyrir undir Arktisk Kommando, einingar innan danska sjóhersins sem fer með björgunar-, öryggis- og varnarmál á norðurslóðum. Landhelgisgæslan og danski flotinn hafa lengi átt í góðu samstarfi, dæmi um það eru sameiginlegar æfingar líkt og þessi velheppnaða reykköfunar- og brunavarnaræfing á Kollafirði.

Roy Gay og Einar Valsson, skipherra á Tý, með myndina góðu.

Roy Gay og Einar Valsson, skipherra á Tý, með myndina góðu.

Degi áður tók Týr þátt í sérstöku verkefni þegar það sigldi með Roy Gay, bróður Phil Gay, skipstjórans af breska togaranum Ross Cleveland út á Ísafjarðardjúp. Skipið sökk í miklu illviðri í febrúar 1968 og fórust 18 skipverjar en einn komst lífs af. Áður en skipið fórst sendi Gay skipstjóri kveðjuorð í talstöðina: „Við erum að fara. Skilið ástarkveðju minni og skipsmanna til eiginkvenna okkar og fjölskyldna.“ Í sama veðri fórst báturinn Heiðrún II frá Bolungarvík með sex mönnum og togarinn Notts County strandaði á Snæfjallaströnd. Áhöfn varðskipsins Óðins bjargaði skipverjunum á Notts County við mjög erfiðar aðstæður en einn þeirra var þá þegar drukknaður.

Með Roy Gay í för var breskur kvikmyndagerðarmaður sem vinnur að heimildarmynd um veru breskra togara á Íslandsmiðum og er saga Ross Cleveland þar á meðal. Farið með þá félaga út að þeim stað sem Ross Cleveland sökk. Efnt var til stuttrar minningarathafnar á léttbát frá varðskipinu og var athöfnin mynduð frá öðrum léttbáti skipsins. Hluti áhafnar varðskipsins stóð heiðursvörð á þilfari á meðan athöfnin fór fram. Roy sagði að þetta væri í fyrsta skipti sem einhver af ættingjum þeirra sem fórust kæmu á staðinn. Þá færði hann varðskipinu að gjöf málverk af togaranum sem hefur verið sett upp í setustofu skipsins.

 

Deila: