Aukinn afli á fiskveiðiárinu

Deila:

Heildarafli íslenska flotans á fyrstu 9 mánuðum fiskveiðiársins 2016/2017, frá 1. september 2016 til 31. maí 2017, nam um 874 þúsund tonnum upp úr sjó. Til samanburðar var aflinn á sama tímabili í fyrra 814 þúsund tonn. Þetta er aukning í heildarafla sem nemur um 7,4% eða um 60 þúsund tonnum. Er þessi munur milli fiskveiðiára að mest vegna aukinnar veiði í loðnu samkvæmt frétt á heimasíðu Fiskistofu.

Botnfiskur

Á þessu 9 mánaða tímabili yfirstandandi fiskveiðiárs veiddu íslensk skip tæplega 23 þúsund  tonnum minna af þorski úr sjó en á fyrra ári. Samdráttur í ýsuafla var um 5 þúsund tonn. Heildaraflinn í botnfiski á þessu tímabili er tæp 330 þúsund tonn upp úr sjó samanborið við tæp 383 þúsund tonn á sama tímabili í fyrra. Þetta er samdráttur upp á 13,8% sem skýrist einkum af  sjómannaverkfallinu um áramótin.

Uppsjávarfiskur

Á fyrstu 9 mánuðum fiskveiðiársins nam uppsjávarafli íslenskra skipa rúmum 538 þúsund  tonnum. Það er tæplega 117.000 tonnum meiri afli en á sama tímabili á síðasta fiskveiðiári. Milli ára varð talsverð aukning í makríl og loðnu en samdráttur í kolmunna.

Skel- og krabbadýr

Afli íslenskra skipa í skel- og krabbadýrum á þessum tíma fiskveiðiársins er rúmum 3 þúsund tonnum minni en á fyrra ári sem samsvarar um 34% samdrætti.  Nærri helmingssamdráttur varð í veiðum á rækju og samdráttur var líka í humarveiðum og sæbjúgnaveiðum.

Nýting aflamarks- og krókaaflamarksbáta á aflaheimildum í þorski og ýsu

Á fyrstu 9 mánuðum fiskveiðiársins 2016/2017 höfðu aflamarksskip nýtt um 75% af aflaheimildum sínum í þorski (er þá tekið tillit til flutnings heimilda frá fyrra fiskveiðiári, sérstakra úthlutana auk almennrar úthlutunar á grundvelli aflahlutdeildar). Á fyrra fiskveiðiári var þetta hlutfall 86% þannig að þarna gætir sennilega áhrifa verkfallsins. Þorskafli aflamarksskipa til kvóta á þessum helmingi fiskveiðiársins nam tæpum 117 þúsund tonnum. Þegar litið er til aflamarks í ýsu á sama tímabili þá hafa aflamarksskip nýtt rúm 68% ýsukvótans samanborið við 84% á fyrra ári. Í heildina þá hafa aflamarksbátar notað rúm 79% af heildaraflamarki sínu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár miðað við tæp 83% á fyrra ári.

Krókaaflamarksbátar hafa nýtt rúm 73% af aflaheimildum sínum í þorski (er þá tekið tillit til flutnings heimilda frá fyrra fiskveiðiári, sérstakra úthlutana auk almennrar úthlutunar á grundvelli aflahlut-deildar). Á fyrra fiskveiðiári var þetta hlutfall 77,4%. Þorskaflinn hjá þeim var kominn í um 27 þúsund tonn í ár, nánast það sama og á sama tíma í fyrra sem var tæp 28 þúsund tonn. Afli krókaaflamarksbáta í ýsu er um 6 þúsund tonn á fyrstu 9 mánuðum fiskveiðiársins og hafa þeir þá nýtt um 91% krókaaflamarksins í ýsu. Í heildina þá hafa krókaaflamarksbátar notað um 70% af heildaraflamarki sínu fyrir yfirstandandi fiskveiðiár samanborið við 74,5% á fyrra ári. Krókaaflamarksaflinn og kvótastaðan eru því í góðu jafnvægi sem bendir til að verkfallið hafði þar minni áhrif eins og búast mátti við.

 

Deila: