Óli Már fékk „Neistann“

Deila:

Óli Már Eyjólfsson, sem er yfirvélstjóri á Helgu Maríu AK, var heiðraður á sjómannadaginn en þá fékk hann viðurkenninguna ,,Neistann“ við hátíðlega athöfn á Hátíð hafsins í Reykjavík. Að viðurkenningunni standa Félag vélstjóra og málmtæknimanna og TM.

Það hefur tíðkast allar götur frá árinu 1993 að veita yfirvélstjóra íslensks skips viðurkenningu fyrir fyrirmyndar rekstur vélbúnaðar og umgengni um borð í viðkomandi skipi. Við val á verðlaunahafa er m.a. lagt til grundvallar ástand skoðunarskylds vélbúnaðar um borð, ástand öryggis- og viðvörunarbúnaðar, rekstur á vélbúnaði skipsins og umgengni í vélarrúminu. Leitað er umsagnar skoðunarstofa, flokkunarfélaga og TM en á milli 80 og 90% af öllum skoðunarskyldum búnaði um borð í skipum er á ábyrgðarsviði yfirvélstjórans. Hann er einnig sá eini í áhöfninni sem getur fengið heimild flokkunarfélaga til að ljúka fullnaðarskoðun á tilgreindum skipsbúnaði án þess að kvaddur sé til fulltrúi frá flokkunarfélagi.

Tilgangur viðurkenningarinnar er að vekja athygli á hve þýðingarmikið og krefjandi starf yfirvélstjórans er og um leið að veita þeim, sem skara fram úr, viðurkenningu fyrir fyrirmyndarstörf. Miðað er við að veita viðurkenninguna á sjómannadegi ár hvert, en með henni vilja VM og TM koma á framfæri þakklæti sínu til þeirra félagsmanna VM sem eru til fyrirmyndar í starfi og um leið hvetja aðra til að gera enn betur.

Hér að neðan er samantekt með nöfnum þeirra sem hafa fengið viðurkenninguna fram að þessu:

2016 – Guðjón Kolbeinsson, M/V Arnarfelli
2015 – Gunnar Sigurðsson, Málmey SK 1
2014 – Guðni Þór Elísson, Jóni Kjartanssyni SU 111
2013 – Ægir Kristmundsson, Steinunni SH 167
2012 – Björgvin Jónasson, Guðmundi í Nesi RE 13

2011 – Hilmar Kristjánsson Lyngmo, Páli Pálssyni ÍS 102
2010 – Bjarni Sveinbjörnsson, Árna Friðrikssyni RE 200
2009 – Jón Bjarnason, Vigra RE 71
2008 – Magnús Viðar Helgason, M/s Helgafelli
2007 – Hafsteinn Bjarnason, Aðalsteini Jónssyni SU 11

2006 – Jón Már Jakobsson, Venusi HF 519
2005 – Bragi Ragnarsson, Hrafni Sveinbjarnarsyni GK 255
2004 – M. Trausti Ingólfsson, Helgafelli
2003 – Halldór Kristinn Gunnarsson, Björgúlfi EA
2002 – Sigurður Villi Guðmundsson, Víkingi AK

2001 – Þórður Þórðarson, Mánabergi ÓF
2000 – Kristján S. Birgisson, Frera RE
1999 – Björn Jónsson, Baldri Árna RE
1998 – Gunnar Jónsson, Kyndli
1997 – Júlíus Jóakimsson, Sigurborgu HU

1996 – Gunnar Steingrímsson, Vestmannaey VE
1995 – Þorbergur Þórhallsson, Heinaste
1994 – Jóhann S. Jóelsson, Grindvíkingi GK
1993 – Gísli Hafliðason, Brúarfossi

 

 

Deila: