Þriðjungi meiri þorskafli í Færeyjum

Deila:

Landanir á þorski og ýsu í Færeyjum á fyrstu 10 mánuðum ársins eru nú um þriðjungi meiri en á sama tíma í fyrra. Þorskaflinn nú er 13.313 tonn, tæplega 3.000 tonnum meiri en í fyrra. Af ýsu hefur verið landað ríflega 4.000 tonnum, sem er 963 tonnum meira en í fyrra.

Ufsaafli hefur á hinn bóginn dregist saman. Aflinn nú er tæplega 19.400 tonn, sem er samdráttur um tæp 3.600 tonn eða 16%. Fyrir vikið hefur botnfiskaflinn í heildina dregist saman um 100 tonn þar sem samdráttur í öðrum tegundum er 750 tonn, eða 9%.

Flatfiskaflinn nú er 4.400 tonn, sem er 900 tonnum minna en í fyrra. Samdrátturinn er eingöngu í grálúðu, en þar hefur aflinn fallið úr 3.900 tonnum í 3.100 tonn.

Þegar lesið er úr tölum um verðmæti landaðs afla kemur í ljós að í þorskinum hefur verðmætið aukist hlutfallslega meira en magnið, en því er öfugt farið í ýsunni. Þá hefur verðmæti landaðs ufsaafla dregist hlutfallslega minna saman en magnið.

Deila: