Leggja til 20% niðurskurð þorskkvóta í Barentshafi

Deila:

Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, leggur nú til 20% niðurskurð á þorskkvóta Norðmanna og Rússa í Barentshafi. Tillaga ráðsins hljóðar upp á 712.000 tonna heildarafla, en ráðlagður heildarafli þessa árs er 890.000 tonn.

Á síðustu árum hefur þorskstofninn í Barentshafi verið mjög stór og leyfilegur afli mikill í samræmi við það. Hrygningarstofninn náði hæstu hæðum árið 2014, en hefur síðan látið undan síga.

Gjert Dingsør, fiskifræðingur hjá samtökum útgerðarmanna í Noregi, segir að þess hafi verið vænst að ICES myndi leggja til niðurskurð á þorskkvótanum. Mikið hafi verið um þorsk á síðustu árum en um leið minni nýliðun. Því megi búast við frekari lækkun kvótans á næstu árum. En engu að síður sé mikið af þorski í Barentshafinu.

Svipaða sögu er að segja um ýsuna, en þar leggur ICES til niðurskurð um 13%, sem leiðir til leyfilegs heildarafla upp á 202.305 tonn á næsta ári. Ráðið varaði við því á síðasta ári að mikil óvissa væri um stærð hrygningarstofns ýsunnar og nú er sú óvissa að koma fram í ráðleggingum um lægri kvóta.

Í ufsanum er á hinn bóginn lögð til aukning um 15% á grunvelli góðs vaxtar hrygningarstofnsins 2016. Í öðrum tegundum er um minni breytingar að ræða.

Ráðleggingar ICES eru byggðar á rannsóknum norskra og rússneskra fiskifræðinga, en stjórnvöld eiga enn eftir að ákveða hver leyfilegur heildarafli verður á næsta ári. Verði þessi niðurskurður að veruleika, munu þorskveiðiheimildir Íslendinga að dragast saman að sama skapi því þær miðast við útgefinn leyfilegan heildarafla.

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila: