10 þúsund tonna laxeldi hafið

Deila:

Áfangar nást þessa dagana hjá austfirsku laxeldisfyrirtækjunum. Nýjar og öflugar sjókvíar hafa verið settar upp í Berufirði og Reyðarfirði og norskt leiguskip, svokallaður brunnbátur, er að flytja laxaseiði frá seiðastöðvum fyrirtækjanna í Þorlákshöfn. Á bilinu 1800 til 1900 þúsund seiði eru sett út þessa dagana og mun það skila um 10 þúsund tonnum af laxi í fyllingu tímans samkvæmt frétt í Morgunblaðinu í dag.

Fiskeldi Austfjarða er að færa sig úr eldi regnbogasilungs yfir í laxeldi. Lokið verður við að slátra regnboganum upp úr kvíunum á þessu ári. Félagið setti út fyrstu laxaseiðin á síðasta ári og hafa þau vaxið vel. Hefst slátrun fyrir áramót.

Þessa dagana er fyrirtækið að ljúka flutningum á seiðum frá seiðastöðinni Ísþór í Þorlákshöfn og setja í nýjar kvíar á nýjum stað í Berufirði. Eru það um 850 þúsund seiði, nokkuð stór eða um 300 grömm á þyngd, og hefst slátrun á þeim í lok næsta árs.

Fyrstu seiðin í sjó

Laxar fiskeldi er að setja út sjókvíar í Reyðarfirði og í lok vikunnar hefjast flutningar á nærri milljón seiðum frá stöð fyrirtækisins í Þorlákshöfn. Eru það fyrstu seiði fyrirtækisins sem fara í sjó. Seiðin eru á bilinu 100 til 300 grömm að þyngd og verða stærstu laxarnir fullvaxnir og tilbúnir til slátrunar undir lok næsta árs.

Bæði fyrirtækin hafa verið að byggja sig upp tæknilega. Hafa keypt stóra fóðurpramma og þjónustubáta.

Fiskeldi Austfjarða er með aðstöðu á Djúpavogi og slátrar þar sínum laxi. Laxar hafa komið sér upp starfsstöð á Eskifirði. Ekki hefur verið ákveðið hvar fiskinum verður slátrað. Laxar hafa leyfi til framleiðslu á 6 þúsund tonnum í Reyðarfirði og fullnýta það leyfi í ár. Einar Örn Gunnarsson, stjórnarmaður og einn stofnenda, segir að sótt hafi verið um leyfi til stækkunar og vonast hann til þess að það fáist þannig að hægt verði að halda áfram uppbyggingunni á næsta ári.

Fullvaxnir eftir 1,5 til 2 ár

Þau 1.800 til 1.900 þúsund seiði sem fara í sjó í ár eiga að skila tæplega 10 þúsund tonnum af afurðum í lok næsta árs og fyrrihluta árs 2019, ef allt gengur að óskum.

Deila: