Þorskveiðar í Norðursjó standast vottunarkröfur

Deila:

Þorskveiðar í Norðursjó standast kröfur vottunarsamtakanna Marine Stewardship Council til að fá umhverfisvottun um sjálfbærar og ábyrgar fiskveiðar samkvæmt upplýsingum frá MSC.  Vottunarstofan ME Certiication  fyrir þorskveiðar Skota í Norðursjó hefur staðfest að þær standist umræddar kröfur.

Niðurstaðan liggur fyrir eftir að matið hefur verið til skoðunar í 30 daga hjá hagsmunaaðilum. Nú tekur við 15 vinnudaga tímabil þar sem hagsmunaaðilar geta komið fram með athugasemdir, en síðasti frestur til að skila athugasemdum er 18. júlí næstkomandi. Að því loknu ræðst svo hvort vottunin fáist.

Verslanakeðjan Waitrose hefur þegar hafið sölu á þorski af skoskum fiskibátum og segir talsmaður keðjunnar að veiðarnar uppfylli innkaupaskilyrði hennar um sjálfbærni og þorskurinn sé seldur í verslunum bæði í Skotlandi og Englandi.

Þorskveiðar í Norðursjó hafa lengi verið umdeildar og mikil neikvæð umræða verið um þær. Eftirfarandi fyrirsögn í Daily Telegraph frá september á árinu 2012 er gott dæmi um það: „Aðeins 100 þorskar eftir í Norðursjó“.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu MSC náði þorskstofninn í Norðursjó hámarki í 270.000 tonnum á áttunda áratugnum, en hafði fallið niður í 44.000 tonn árið 2006. Á árunum 2004 til 2009 lagði Alþjóða hafrannsóknaráðið til að engar beinar þorskveiðar yrðu stundaðar í Norðursjó.

Í síðustu ráðleggingum ráðsins fyrir yfirstandandi ár kemur fram að hrygningarstofninn sé nú kominn í 174.300 tonn. Ráðlagður afli í ár var 47,431 tonn en kvótinn ákveðinn 39.220 tonn. Þessi árangur hefur náðst með ábyrgri fiskveiðistjórnun með sjálfbærni að leiðarljósi, breytingum á veiðarfærum og svæðalokunum á hrygningartíma samkvæmt upplýsingum MSC.
Alþjóða hafrannsóknaráðið mun leggja ráðgjöf sína fram í þessari viku.

Deila: