Stjörnukokkarnir vilja bara humar frá VSV

Deila:

Stjörnukokkar á Michelin-veitingastaðnum Ciel Bleu í Amsterdam velja bara besta hráefnið til að vinna með. Humarinn fá þeir frá VSV og líta ekki við öðru samkvæmt færslu á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar.

Hópur Eyjamanna og fleiri gesta var um helgina í lúxusveislu á Einsa kalda í Vestmannaeyjum þar sem valið lið annaðist matseldina: Arjan Speelman, yfirmatreiðslumaður á Ciel Bleu, Ronald Oud, kokkur á Ciel Bleu; Einar Björn Árnason – Einsi kaldi og starfsfólk hans.

Þetta var veisla sem lengi verður í minnum höfð hjá þeim sem voru svo heppnir að ná í sæti. Hollensku kokkarnir komu með margvíslegt hráefni að heiman frá sér en notuðu svo líka íslenskt sjávar- og fjörufang og kryddjurtir úr náttúru Eyjanna.

Kokkarnir komu Eyja í fyrra til að kynnast uppruna humarsins sem þeir fá frá Vinnslustöðinni og mættu aftur núna, heillaðir af því sem þeir hafa séð og kynnst hér.

„Auðvitað gleður það okkur verulega að heyra matreiðslumenn á heimsvísu segja að humarinn okkar eigi frátekinn sess í úrvali hráefnis til matreiðslu á Ciel Bleu, sem er á fimm stjörnu hóteli í Amsterdam,“ segir Björn Matthíasson, rekstrarstjóri About fish, markaðs- og sölufélags VSV.

„Við vitum sjaldnast hvar framleiðsluvörurnar okkar hafna á endanum, sölufyrirtækin ytra eru milliliðir í viðskiptunum. Í þessu tilviki sköpuðust hins vegar tengsl fyrir milligöngu Einsa kalda og við höfum fengið það beint í æð frá hollensku stjörnukokkunum hve mikils þeir meta humarinn frá VSV. Þeir nota einfaldlega ekki annan humar í eldhúsinu sínu og það hlýtur að segja það sem segja þarf um gæði vörunnar!“

 

Deila: