Ofnbakaður lax teriyaki
Jæja, nú fáum við okkur lax. Alltaf er hægt að fá glænýjan gæðalax alla daga ársins, þökk sé vaxandi laxeldi á Íslandi. Laxeldi er að verða helsta atvinnugreinin á Vestfjörðum og mun skapa meiri verðmæti og fleiri störf þar en hefðbundinn sjávarútvegur gerði þegar best lét á sínum tíma. Svipaða sögu er að segja frá syðri byggðum Austfjarða. Eldislax er hollur matur fullur af mikilvægum næringar- og lífrænum bætiefnum sem við þurfum öll. Því bendum við lesendum okkar á þessa ágætu uppskrift frá Norðanfiski sem miðuð er við 4.
Höfundur uppskriftarinnar er Leifur Kolbeinsson yfirmatreiðslumaður á Marshall veitingahúsi + bar.
Marshall veitingahús er við síldarbryggjuna í Reykjavík og leggur meðal annars áherslu á ferskan fisk.
Innihald:
- 800 g lax
- 60 ml sojasósa
- 60 ml vatn
- 1 msk maizena kornsterkja
- 4–5 msk hunang
- 3 msk hrísgrjónaedik
- 4 msk ananas, saxaður
- 1 hvítlauksgeiri, rifinn
- 1 tsk engifer, rifinn
Aðferð:
Búið til teriyaki-sósu með því að blanda saman sojasósu, vatni, maizena, hunangi, hrísgrjónaediki, ananas og hvítlauk. Veltið laxinum síðan upp úr sósunni og setjið í 200°C heitan ofn og bakið í u.þ.b. 8 mín. Gott er að hafa hrísgrjón og ferskt salat með.