Langar í siglingu um Scoresbysund

Deila:

Maður vikunnar á Kvótanum í dag er Siglfirðingurinn Guðmundur Gauti Sveinsson. Hann starfar hjá Fiskmarkaði Siglufjarðar og er ánægður í því starfi. Þar er enginn dagur eins og erfiðleikar aðeins verkefni til að leysa.

Nafn?

Guðmundur Gauti Sveinson

Hvaðan ertu?

Fæddur 1983 á Siglufirði.

Fjölskylduhagir?

Giftur Katrínu Drífu og eigum við þrjú börn , Jóhann Gauta , Guðnýju og Brynju.

Hvar starfar þú núna?

Við Fiskmarkað Siglufjarðar.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég hóf störf hjá Fiskmarkað Siglufjarðar árið 2007.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Fjölbreytileikinn. En eins og margir hafa sagt, það eru engir tveir dagar eins í sjávarútvegi. Hjá okkur á Fiskmarkaði Siglufjarðar byrjar vertíðin á vorin með grásleppunni, síðan tekur strandveiðin við og þegar henni líkur koma stóru línuskipin. Er því nóg að gera flesta daga ársins og er það það skemmtilegasta við að starfa við sjávarútveginn. 

En það erfiðasta?

Þegar að tæki og tól bila og þú stendur frammi fyrir bölvuðu veseni sem þó virðist alltaf reddast í lok dags og þú ferð þreyttur en ánægður heim.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Úfff .. Ætli það hafi ekki verið þegar að ég var nýbyrjaður á Fiskmarkaðnum og skipstjóri á línubát frá Grindavík ætlaði að fá far með flutningabíl suður um kvöldið til þess að komast í aðgerð hjá lækni daginn eftir. En bílstjórinn var ekki alveg beittasti hnífurinn í skúffunni og klúðraði lestuninni á bílnum margoft og þegar að klukkan var að verða 2-3 um nóttu  og strák greyið orðinn vonlítill um að ná suður til „doksa“ í tæka tíð vegna lestunarhæfileika bílstjórans, ákvað ég að lána honum bílinn minn til þess að hann kæmist nú undir læknishendur. Viðbrögðin og svipurinn á skipstjóranum þegar að ég bauð honum bílinn minn var eiginlega svona „kodak moment”.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Á Fiskmarkaði Siglufjarðar vinnur góður og samheldinn hópur og er því erfitt að pikka einn úr.

Hver eru áhugamál þín?

Að eiga góðar stundir með fjölskyldunni, horfa á fótbolta (Manchester United stuðningsmaður), ljósmyndun (hef mikið verið að mynda skip og báta og held úti myndsíðunni skoger.123.is) og dunda mér í eldhúsinu eða standa við grillið.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Fiskur og lambakjöt – steikt, grillað og soðið. 

Hvert færir þú í draumfríið?

Ég væri til í að fara í siglingu með skútu um Scoresbysund. 

 

Deila: