Miklar heimildir enn ónýttar á strandveiðunum

Deila:

Umtalsverðar heimildir strandveiðibáta á svæðum B, C og D eru enn ónýttar, þegar fjórða veiðivika þessa mánaðar er hafin. Þegar fjórir dagar í þessari viku eru eftir og einn í byrjun næstu viku á þessu tímabili, eru óveidd um 40% eða 870 tonn á þessum þremur svæðum og 54 tonn á svæði A. Heimildir sem ekki nást á þessu tímabili flytjast yfir á næsta tímabil, sem er  það síðasta og stendur út ágúst.

Staðan við upphaf dagsins er sú að veiðar á svæði A hafa verið stöðvaðar frá 14. þessa mánaðar. Alls hafa þar veiðast 1.008 tonn á þessu tímabili. 225 bátar hafa farið í 1.412 róðra og er meðalafli á bát 714 kíló í róðri og afli á bát að meðaltali 4,5 tonn. Óveidd eru 54 tonn.

Á svæði B er aflinn orðinn 518 tonn í 908 róðrum. Bátarnir eru 131 og meðalafli í róðri 571 kíló. Meðalafli á bát er 4 tonn. Óveidd eru 332 tonn.

Á svæði C hafa 120 bátar landað samtals 617 tonnum í 899 róðrum. Meðalafli í róðri er 686 kíló og afli á bát að meðaltali er 5 tonn. Óveidd eru 371 tonn

Á svæði D hafa 106 bátar landað 220 tonnum samtals í 406 róðrum. Meðalafli í róðri er 542 kíló og meðalafli á bát 2 tonn. Óveidd eru 167 tonn.

Deila: