Stöðva veiðar á sæbjúgum á Faxaflóa

Deila:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur gefið út reglugerð nr. 671/2017 um bann við veiðum á sæbjúgum á veiðisvæði í Faxaflóa.
Bannið gildir frá og með 24. júlí 2017.

Tilraunaveiðar á sæbjúga hófust í sunnanverðum Breiðafirði árið 2003 en litlu var landað til 2008. Aðalveiðislóðir eru í Faxaflóa, Aðalvík og við Austurland. Engar veiðar eru leyfðar vegna hrygningar í maí–júní við vestanvert landið og júní–júlí á öðrum svæðum.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við varúðarnálgun að afli fiskveiðiárið 2017/2018 fari ekki yfir 1731 tonn á skilgreindum veiðisvæðum; 644 tonn í Faxaflóa, 985 tonn við Austurland og 102 tonn í Aðalvík. Hafrannsóknastofnun ráðleggur jafnframt að skilgreind veiðisvæði í Faxaflóa og við Austurland verði stækkuð í samræmi við útbreiðslu veiðanna.

Afli á sóknareiningu hefur verið fremur stöðugur í Faxaflóa frá 2008, en var með minnsta móti árið 2016. Við Austfirði og í Aðalvík minnkaði afli á sóknareiningu hratt árin 2009–2015 en jókst árið 2016.

Á myndinni er vreið að vinna sæbjúgu hjá Hafnarnesi-Ver í Þorlákshöfn árið 2015. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: